Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:53:12 (880)

1999-10-21 15:53:12# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að það er óviðeigandi þó að ég taki þátt í almennum umræðum að kalla mig forseta Alþingis í því samhengi. Það er annar maður sem gegnir því embætti meðan ég er í ræðustól í almennum umræðum um frv.

Í öðru lagi vil ég segja að þessi síðasta ræða hv. þm. kom mér mjög mikið á óvart vegna þess að hann hefur greinilega verið að velta því fyrir sér hvort þessar tvær stofnanir, Samkeppnisstofnun og umboðsmaður Alþingis, væru nákvæmlega eins en hlaut auðvitað að komast að þeirri niðurstöðu að svo er ekki.

Ég var á hinn bóginn að vekja athygli á því að virðing umboðsmanns Alþingis og það traust sem til hans er borið er mjög mikið vegna þess að umboðsmaður hefur farið vel með vald sitt og embætti, og forðast að lenda í innihaldslausum stælum um dægurmál.

Ég vil í þriðja lagi vekja athygli á því að ég beindi þeirri fyrirspurn til 1. flm. hvort hann teldi eðlilegt að embættismenn Samkeppnisstofnunar gætu dregið til baka úrskurð samkeppnisráðs einhliða án þess að samkeppnisráði sé um það kunnugt og án þess að nokkuð sé um það bókað. Þetta er auðvitað efnislega mjög skýr og hrein spurning. Þetta atvik hefur komið fyrir. Embættismenn Samkeppnisstofnunar hafa ógilt og dregið til baka úrskurð samkeppnisráðs. Ég óska eftir því að fá að vita hvaða skoðanir hv. þm. hefur á því.