Eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:13:41 (886)

1999-10-21 16:13:41# 125. lþ. 15.4 fundur 98. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# (stjórnsýsluleg staða, valdheimildir, o.fl.) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir það með hv. þm. að það er algert lykilatriði í þessu að Fjármálaeftirlitið geti verið sjálfstætt. Ég vonast til þess að trúverðugleiki Fjármálaeftirlitsins í dag sé þannig að það hafi starfað með þeim hætti að það sé algerlega sjálfstætt. Það eina sem viðskrh. gerir í þessum efnum er að hann skipar stjórn fyrir ráðuneytið og einn aðili þar er tilnefndur frá bankastjórn Seðlabanka Íslands. Hinir tveir fulltrúarnir eru skipaðir af viðskrh. Það er raunverulega ekki hægt og menn leituðu mjög vel fyrir sér í þeim efnum hvort hægt væri að gera þetta með öðrum hætti og komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri sú eina leið sem fær væri til þess að skipa stjórn fyrir eftirlitið. Þar eru algerlega óháðir fagaðilar sem skipaðir hafa verið í stjórnina.

Til að undirstrika sjálfstæði eftirlitsins er alveg skýrt að það er ekkert kærusamband á milli eftirlitsins og viðskrn. í þeim efnum. Það er eins konar undirstrikun á sjálfstæðinu. Um leið og minnsti grunur væri um að ekki væri um sjálfstæði eftirlitsins að ræða, sem ég tel að sé ekki til staðar í dag, og að Fjármálaeftirlitið hafi sýnt það í störfum sínum að það er algerlega sjálfstætt þá væri illa komið.