Eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:15:30 (887)

1999-10-21 16:15:30# 125. lþ. 15.4 fundur 98. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# (stjórnsýsluleg staða, valdheimildir, o.fl.) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu minni var í upphaflega frv. sem hæstv. viðskrh. lagði fram á 122. löggjafarþingi tekið fram að stofnunin heyrði undir viðskrh. En það kom jafnframt fram í frv., til að taka af öll tvímæli, að hann hefði ekki afskipti af einstökum málum sem til umfjöllunar væru hjá stofnuninni. Eins og ég segi þá efa ég ekki að núv. hæstv. viðskrh. hefur virt sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins, en okkur finnst engu að síður rétt að taka af öll tvímæli.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að Fjármálaeftirlitið hefur á þeim stutta tíma sem það hefur starfað gengið tiltölulega vel þótt þar séu einhver atriði sem eru gagnrýni verð, fyrst og fremst vegna þess að þær heimildir sem Alþingi veitti á sínum tíma þegar lögin voru sett, t.d. til þess að kalla fram upplýsingar eða beita sektarákvæðum, hafa ekki verið eins víðtæk eins og þau þyrftu að vera.

Ég lýsi ánægju minni með að hæstv. ráðherra. skuli ætla að leggja fram frv. fljótlega eftir að Alþingi kemur saman eftir svokallaða kjördæmaviku og býst við að þetta frv. ásamt því verði skoðað saman því að vafalaust geta þau frumvörp bætt hvort annað upp.