Afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:43:03 (892)

1999-10-21 16:43:03# 125. lþ. 15.5 fundur 15. mál: #A afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóðar upplýsingar og gott svar við þessu framlögðu frv. Þetta var ágætis fróðleikur fyrir mig. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir sumu af því sem hæstv. ráðherra talaði um en mér var alveg ljóst að ókostir verðtryggingar eru m.a. að hún er sett upp vegna óstöðugleika. Það virkar illa fyrir erlenda viðskiptaaðila. Þetta hef ég orðið var við fyrir löngu síðan.

Það sem ég hafði kannski mestar áhyggjur af og nefndi í ræðu minni var að þeir sem hafa lækkað í launum eða hafa laun sem hafa hækkað minna en meðaltalshækkun standa verr að vígi með lán sín en almennt gengur og gerist. Mér var ljóst að raunvextir væru nokkru hærri en ég hafði líka áhyggjur af einu til viðbótar sem hæstv. ráðherra nefndi ekki, þ.e. verðbólgunni, áhrifum verðtryggingar á verðbólgu. En í rauninni er fjármagn miklu lausara í bönkunum þegar það er verðtryggt og það getur vel hafa komið sér vel.

Ég hef einnig áhyggjur af því að skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimila hafa vaxið frá árinu 1988 úr 60% af ráðstöfunartekjum upp í 140%. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort þar séu tengsl við þessi löngu verðtryggðu lán. Mér er það ekki alveg ljóst.