Afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:45:20 (893)

1999-10-21 16:45:20# 125. lþ. 15.5 fundur 15. mál: #A afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Já, það má auðvitað velta þeim hlutum fyrir sér. En þegar við veltum því fyrir okkur þá verða menn að gera sér grein fyrir því að við verðum að verðtryggja, hvort sem það er gert með beinni verðtryggingu eða háum vöxtum. Við verðum í raun að verðtryggja innstæður fólks í landinu, sparnað almennings. Þetta held ég að við séum allir orðnir sammála um.

Ef við ætlum að gera það þá komum við strax að þessu að það er auðvitað rétt að maður sér það frá árinu 1988 að skuldir heimilanna hafa stóraukist sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Sem betur fer held ég að ég megi fullyrða að á síðustu tveimur árum hafi dregið úr hækkuninni. Það hefur ekki lækkað heldur hefur dregið úr þessum mikla vexti. Það er tilkomið vegna þess að ráðstöfunartekjurnar hafa hækkað örlítið hraðar en lánskjaravísitalan á þessum tíma. En þegar við erum búin að ákveða að tryggja þessar skuldbindingar allar saman, bæði innlánin og útlánin hvort sem það er með verðtryggingunni eða vöxtunum, þá gerist þetta svo lengi sem við höldum áfram að taka lánin. Það er kannski okkar stærsta vandamál þessa stundina hversu útlánaaukningin hefur orðið hrikalega mikil á undanförnu einu eða tveimur árum. Við þurfum að koma sparnaðarhugsun þarna inn til þess að draga úr lántöku.