Byggðakvóti

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:07:49 (899)

1999-11-01 15:07:49# 125. lþ. 16.1 fundur 94#B byggðakvóti# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í lögunum um stjórn fiskveiða er bráðabirgðaákvæði þess efnis að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar 1.500 þorskígildislestir til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og skal þessum aflaheimildum ráðstafað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Aflaheimildum þessum var öllum ráðstafað fyrir yfirstandandi fiskveiðiár og er skemmst frá því að segja að mikil viðbrögð hafa orðið bæði við úthlutun Byggðastofnunar og einnig því hvernig sveitarfélögin hafa lagt til að farið yrði með þessar aflaheimildir.

Eitt þeirra sveitarfélaga sem lent hafa í vanda með tillögur um hverjir ættu að fá þau gæði sem felast í aflaheimildum er Vesturbyggð. Niðurstaða sveitarstjórnarinnar þar varð sú að leggja til að þeir bátar sem sótt höfðu um að veiða þennan kvóta mundu bjóða í heimildirnar enda sveitarstjórnum vandi á höndum að úthluta takmörkuðum gæðum öðruvísi en að sátt yrði um úthlutunina. Þá fjármuni sem þannig yrðu til --- en miðað við kvótann hefði hér verið um að ræða 20 millj. kr. á ári, 100 millj. fyrir þau fimm ár sem kvótanum var úthlutað --- ætlaði sveitarstjórnin að nýta til uppbyggingar atvinnumála í byggðarlaginu. Hins vegar hafnaði formaður Byggðastofnunar tillögunni nánast samdægurs án mikilla útskýringa.

Nú er það svo að útboð er viðurkenndur háttur í samfélagi okkar þegar úthluta á verkefnum eða takmörkuðum gæðum. Ég óska því eftir viðbrögðum hæstv. forsrh. og ráðherra byggðamála. Hver er skoðun hans á málinu? Telur hann, eins og sveitarstjórn Vesturbyggðar, að útboð sé rétta leiðin þegar úthluta á takmörkuðum gæðum eins og veiðiheimildir eru sannarlega?