Umboð nefndar um einkavæðingu

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:13:47 (904)

1999-11-01 15:13:47# 125. lþ. 16.1 fundur 95#B umboð nefndar um einkavæðingu# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Af fréttum að undanförnu hefur mátt ráða að svonefnd einkavæðingarnefnd sem hefur verið að keppast við að koma út hlut ríkisins í Fjárfestingarbankanum að undanförnu hyggist taka því eina tilboði sem borist hefur eða hefur verið tekið gilt í bankann. Ef hér er rétt frá sagt hljómar það eins og þessari nefnd hafi verið framselt vald til þess að ákveða hvort tilteknu tilboði í eign ríkisins upp á tæpa 10 milljarða kr. sé tekið eða ekki tekið.

Þetta vekur spurningar, herra forseti, um það hvort svonefndri einkavæðingarnefnd hafi verið framselt vald til þess að ákveða hluti af þessu tagi og þá með stoð í hvaða lagaákvæðum, hvort vald til að framselja ákvörðunarrétt sem viðskrh. og sjútvrh. fara lögum samkvæmt sameiginlega með hvað varðar eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbankanum hafi verið framselt til þessarar nefndar. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh., sem skipar téða einkavæðingarnefnd, hvort um sé að ræða að valdið til að taka slíkar ákvarðanir hafi verið framselt til einkavæðingarnefndarinnar og þá með stoð í hvaða lögum og hver séu þá valdmörkin milli einkavæðingarnefndarinnar að þessu leyti og ráðherranna sem lögum samkvæmt eiga að fara með eignarhlut ríkisins í nefndum banka.