Umboð nefndar um einkavæðingu

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:17:13 (906)

1999-11-01 15:17:13# 125. lþ. 16.1 fundur 95#B umboð nefndar um einkavæðingu# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér taldi hæstv. forsrh. upp alveg heilt ættartré af nefndum. Í fyrsta lagi virðist ríkisstjórnin hafa einhvers konar innri nefnd um þessi einkavæðingarmál, einhverja vinnunefnd sem í sitja þrír ráðherrar. (Forsrh.: Fjórir.) Fjórir, nú þess þá heldur. Í öðru lagi er þarna um að ræða einkavæðingarnefndina sem ég lít svo á að sé stjórnskipuð nefnd með bréfi frá hæstv. forsrh. Í þriðja lagi er sérstök undirnefnd einkavæðingarnefndarinnar sem í sitja nafngreindir einstaklingar, Hreinn Loftsson, Jón Sveinsson og Brynjólfur nokkur Sigurðsson frá Háskóla Íslands. (Gripið fram í: Allir óskyldir.) Ég leyfi mér enn að spyrja: Hefur verið staðið eðlilega að málum í þessum efnum? Þarf ekki að ganga formlega og mjög skipulega frá því hvar valdmörk og umboð liggja þegar um svona alvarlega hluti er að ræða? Það hljómar ekki mjög trúverðugt, herra forseti, að heyra þessa nefndaupptalningu hæstv. forsrh., en þó fannst mér felast í svarinu að hér hafi ekki verið rétt frá skýrt að því leyti til að ákvörðunarvaldið liggi hjá ráðherrunum, enda hlýtur það auðvitað að vera svo lögum samkvæmt, þannig að ég vona að hér hafi ekkert annað gerst en það sem samræmist lögum.