Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 16:41:24 (930)

1999-11-01 16:41:24# 125. lþ. 16.6 fundur 63. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[16:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er afar þýðingarmikil tillaga sem hér er til umræðu um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Ég er einn af flm. tillögunnar og ég vænti þess og bind við það vonir að þingmenn á hv. Alþingi taki undir hana og tryggi framgang hennar.

Í tilefni af því, virðulegi forseti, að 1. flm., Jóhanna Sigurðardóttir, fór nokkrum orðum um hversu miklir eftirbátar við erum í útgjöldum til málefna barna og fjölskyldna, vil ég taka fram að á því eru reyndar undantekningar sem sanna að það skiptir máli hverjir stjórna og með hvaða hugarfari fólk tekst á við málaflokka. Á bls. 6 í annarri tillögu sem dreift var á hv. Alþingi í dag, um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þegar við skoðum útgjöld til barnaverndarmála á Norðurlöndum í jafnvirðisgildum á íbúa, má sjá að Ísland er alls ekki lægst eins og það yfirleitt er í öllum samanburði, heldur ívið betra en Noregur og Finnland. Það má rekja til þess að á árinu 1994 og 1995 var verið að gera grundvallarbreytingar á málaflokki barnaverndarmála. Málaflokkurinn var fluttur til félmrn. og mikil uppbygging var í málaflokknum sem skilar okkur tiltölulega jákvæðum samanburði í þessum afmarkaða þætti. Þetta er afar mikilvægt og ástæða til að vekja athygli á því og einnig því að flutningsmaður þeirrar tillögu sem við fjöllum um núna hélt um þau mál á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Af því að við erum að tala um Norðurlöndin, þá er á alþjóðlegum ráðstefnum gjarnan talað um norræna módelið af því að Norðurlönd eru í fararbroddi og við metum okkur alltaf á jafnréttisgrundvelli í umræðunni um Norðurlönd. En í velferðarmálunum erum við eftirbátar eins og hefur þegar komið fram í framsögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og við fáum oft að heyra það frá fólki sem flyst hingað heim til Íslands eftir áralanga búsetu annars staðar á Norðurlöndum að það kvartar sáran um að hér sé ekki fjölskylduvænt samfélag. Það mætir því allt öðruvísi þjóðfélag og allt annar aðbúnaður en fólk á að venjast.

Í raun og veru er það þannig að stefnumörkun í málefnum barna er stefnumörkun í málum fjölskyldunnar og í raun jafnréttismál fjölskyldunnar í dag því að meðan aðbúnaði barna er ábótavant næst heldur ekki árangur í málum fjölskyldunnar og jafnréttismálum. Reyndar er það svo að við bíðum enn þá eftir lagabreytingum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar þess að á síðasta kjörtímabili var mörkuð stefna Alþingis um að ríkisstjórnin framkvæmdi stefnu í fjölskyldumálum.

[16:45]

Þegar við ræðum afmarkað um fæðingarorlof á Alþingi erum við oftast að ræða um rétt foreldra eða jafnvel jafnréttismál en þetta er jafnþýðingarmikill þáttur í aðbúnaði og umönnun barna. Fæðingarorlofið er til að mynda bara rúmlega helmingur af því sem lakast er á hinum Norðurlöndunum og þar sem það er best á hinum Norðurlöndunum er það næstum þrefalt lengra en á Íslandi. Þar er líka sveigjanleiki í fyrirrúmi, bæði varðandi lengingu fæðingarorlofstímans og að foreldrar megi vera í hlutastarfi samhliða hlutaorlofi sem skiptir mjög miklu máli fyrir fólk á vinnumarkaði, að ég tali ekki um að mæður á Íslandi eiga 26 vikna rétt til fæðingarorlofs á meðan faðirinn á rétt á tveggja vikna orlofi. Þessi mismunun varðar rétt barnsins til samvista við báða foreldra. Þetta er ekki bara mál foreldranna og jafnréttismál þeirra, þetta er líka mál barnsins.

Fjölskyldumyndin hefur breyst mjög mikið síðari ár. Þar sem áður fyrr var fjölskyldan, pabbi, mamma, barn eða börn, þá eru öðruvísi fjölskyldur orðnar mjög margar síðari ár. Hjónaskilnaðir hafa þrefaldast á síðustu 35 árum og aðrar tegundir fjölskyldna hafa fengið viðurkenningu á þessum tíma. Það er hlutverk okkar, löggjafans, að fylgjast með og laga lög og rétt, ekki síst réttinn, að þessum nýja veruleika.

Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því hve há tíðni sambúðarslita og skilnaða er. Þeir eru um 1.300 á hverju ári og í nærri 60% tilvika eru börn í dæminu þannig að segja má að á u.þ.b. 760 heimilum missi 1.140 börn annað foreldra sinna út úr fjölskylduumhverfi sínu á hverju einasta ári. Það er hlutverk stjórnvalda að jafna aðstöðu barna eins og unnt er og skapa jöfnuð meðal íbúanna. Því miður gengur allt of hægt hjá okkur og við erum á engan hátt samanburðarhæf við hin Norðurlöndin í þessum efnum.

Það er líka svo að það er ekki bara að réttur karla sé fyrir borð borinn heldur um leið réttur barna til samvista og umgengni við foreldra sína. En af því að ég var að tala um skilnaði, þá eru tæplega 9.000 einstæðir foreldrar í landinu og liðlega 8.000 konur fara með forsjá tæplega 12.000 barna en aðeins um 580 karlar sem fara með forsjá 700 barna. Þetta segir sína sögu og hversu mikilvægt er að tengja eins og unnt er með lögum öryggi inn í umhverfi þessara barna.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að fyrirtækin í landinu fari að taka ábyrgð á fjölskyldunni og gera ráð fyrir því að bæði kynin þurfi að vera frá vegna fæðingarorlofs og veikinda barna eða það þurfi að sinna barninu, fara með það í sprautu og annað, og að það er ekki bara réttur karla heldur réttur barnsins.

Samfylkingin hefur flutt og mun flytja mjög mörg mál á þessu þingi um bætta réttarstöðu barna. Ég hef þegar vísað til tillögu um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem dreift var í dag. Við leggjum líka til að komið verði á fót endurgjaldslausri ráðgjöf fyrir þá sem hyggjast skilja og að skipa barni talsmann og við verðum með mál um feðrun barna sem bæta réttarstöðu þeirra sem telja sig vera feður barns. Þetta er allt ekki bara réttur foreldranna heldur réttur barnanna sem við eigum að tryggja og þess vegna er sú tillaga, virðulegi forseti, sem hér er til umfjöllunar mjög víðtæk, mjög þýðingarmikil og fjallar í raun og veru um alla þætti samskipta fjölskyldunnar.