Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 16:50:09 (931)

1999-11-01 16:50:09# 125. lþ. 16.6 fundur 63. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 5. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir flutning tillögu um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Sem meðflutningsmaður tillögunnar vil ég leggja áherslu á mikilvægi þess að markmið stefnumótunar er að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðfélagsins og búa þau sem best undir framtíðina en það gerum við aðeins ef þeim eru tryggð sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Því er nauðsynlegt að allir sem koma að málefnum barna og unglinga, eins og komið hefur fram hjá framsögumanni, komi að þessu mikilvæga máli. Ekkert er í raun mikilvægara í hverju samfélagi en að koma börnum til manns. Markmið okkar allra er að börn eigi þess kost að alast upp í öruggi og örvandi umhverfi.

Mikil atvinnuþátttaka og langur vinnutími hefur um langan tíma verið eitt af einkennum íslensks samfélags og það heyrir nánast til undantekningar að fólk sinni launavinnu innan veggja heimilisins. Það er því foreldrum og forráðamönnum barna afar mikilvægt að vita af þeim í vernduðu umhverfi í skóla eða leikskóla á meðan foreldrar eru við vinnu. Það er því áhyggjuefni þegar nú er svo komið að í Reykjavík er samkvæmt fréttum í dag verið að segja börnum upp dagheimilissamningum. Sú staða getur komið upp hjá fleiri sveitarfélögum og er sú þróun mjög alvarleg, bæði fyrir börn og foreldra þeirra.

Mikilvæg skref hafa verið tekin af hálfu stjórnvalda þegar lög um umboðsmann barna voru samþykkt á Alþingi árið 1994 og ráðinn var umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, sem hefur sinnt starfi sínu með miklum sóma. Umboðsmaður barna hefur haldið kynningar og fræðslu í skólum og vinnustöðum og með sveitarstjórnarmönnum þar sem ég sat m.a. fund með umboðsmanni barna og hafði mjög mikið gagn af. Ég held að svo vel hafi til tekist að ekkert barn eða unglingur í dag viti ekki um réttindi sín. Þau eru mjög meðvituð um öll réttindi sín sem er vel.

Ýmislegt hefur verið gert af hálfu stjórnvalda í málefnum barna og unglinga. M.a. hafa umdæmi barnaverndarnefndanna stækkað og barnaverndarnefndum hefur fækkað og það er mjög nauðsynlegt að það haldi áfram og að þeim verði kleift að ráða í þjónustu sína sérhæft starfslið. Ég held að eitt það mikilvægasta í málefnum barnaverndarnefnda sé að þau hafi á að skipa starfsliði sem hefur þekkingu á þeim málum sem þar er fjallað um.

Íslendingar fullgiltu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992 en sáttmálinn hefur að geyma fjölmörg atriði er lúta að réttindum barna. Lög barnanna fela í sér full mannréttindi allra barna og unglinga og öll eiga þau sama rétt til að alast upp í friði og öryggi og virðingu fyrir hugsunum sínum og skoðunum. Því var mjög ánægjulegt fyrir mig að verða vitni að því á 54. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku að hlýða á ræðu Þorsteins Ingólfssonar, fastafulltrúa okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, um réttindi barna. Með leyfi forseta, kem ég með smáútdrátt úr ræðu hans, en þar segir hann m.a.:

,,Þrátt fyrir að næstum öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafi fullgilt sáttmálann stendur aukinn fjöldi barna í heiminum andspænis nýrri hættu og ógn við rétt þeirra til að eiga barnæsku og að þroskast og í mörgum tilvikum rétt þeirra til að lifa. Setja verður hagsmuni þessara barna ofarlega á dagskrá Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir og mannréttindi barna eiga að vera órjúfanlegur þáttur í stefnumótun samtakanna á sviði þróunar og í málaflokkum eins og fátækt, fjölgun mannkyns, heilbrigði, menntakerfi o.s.frv.

Flestir viðurkenna að fátækt er ein af meginástæðum fyrir sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi. Um er að ræða alþjóðlegt fyrirbrigði bæði hjá iðnríkjunum og í þróunarríkjunum. Kallað er eftir alþjóðlegu samstarfi, ekki aðeins milli stjórnvalda heldur einnig milli einkaaðila, t.d. fjölmiðla sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun og sölu á börnum.

Almennt er viðurkennt að menntun og félagsleg þróun fara hönd í hönd. Allir, bæði piltar og stúlkur, eiga að geta notið réttar til menntunar án tillits til bakgrunns þeirra.

Á tímum aukinna ferða manna landa á milli eru mörg börn í þeirri aðstöðu að vera í nýju landi og þurfa að læra nýtt tungumál. Aðstaða þessara barna er mjög ójöfn miðað við aðstæður annarra barna. Taka þarf á þessu máli nú á tímum aukinnar hnattvæðingar og tækni þar sem mikilvægi menntunar hefur margfaldast, ekki einungis vegna velferðar einstaklingsins heldur fyrir samfélagið í heild.

Nauðsynlegt er, sem liður í alþjóðlegu samkomulagi um mannréttindi barna, að þau og ungt fólk taki þátt í umræðum og aðgerðum sem hafi það að markmiði að breyta félagslegu umhverfi þeirra til þess að stuðla að lágmarks alþjóðlegum lífskjörum fyrir börn.

Á fundi utanríkisráðherra fimm Norðurlanda, sem haldinn var á Íslandi í ágúst sl., var gefin út sameiginleg yfirlýsing gegn notkun barnahermanna. Í yfirlýsingunni er bent á að vernd barna í hernaðarátökum, sem veitt er í núgildandi alþjóðlegum sáttmálum, er ófullnægjandi og hækka verði alþjóðlega staðla. Ísland styður aðkallandi gerð bókunar í þá veru að aðildarríki tryggi að einstaklingar yngri en 18 ára verði hvorki teknir í her né í sjálfstæða vopnaða hópa. Börn á aldrei undir neinum kringumstæðum að þvinga til þess að taka þátt í átökum.``

Mér fannst það mikilvægt af því að ég átti þess kost að sitja fundi Sameinuðu þjóðanna og hlýða á ræðu Þorsteins Ingólfssonar að fá að flytja hana áfram eða hluta af henni hingað til ykkar.

Herra forseti. Það er hvort tveggja mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að málefni barna og unglinga séu í sem bestum farvegi og að rödd okkar heyrist á alþjóðavettvangi því að við höfum ýmislegt til málanna að leggja til annarra þjóða. Málefni barna eru mannréttindi, þau eru fjölskyldumál og fjölskyldan er og mun verða hornsteinn samfélagsins.