Málefni innflytjenda á Íslandi

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 17:42:20 (937)

1999-11-01 17:42:20# 125. lþ. 16.8 fundur 91. mál: #A málefni innflytjenda á Íslandi# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[17:42]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það var gott að heyra hve vel hv. þm. Árni Gunnarsson tók undir tillöguna. Hann benti réttilega á að um mjög margslungið verkefni væri að ræða. Hann tíndi til ýmis dæmi, t.d. um að réttindi maka Íslendinga sem flyttust hingað til lands væru af skornum skammti og önnur dæmi. Hann sagði að í gangi væri margvísleg vinna til að fá úr þessu bætt. Það sem við leggjum höfuðáherslu á hér er staða kvenna og barna. Þótt ég sé einn skrifaður fyrir þessari þáltill. þá hefur hún fengið mikla umræðu í þingflokki okkar, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Í reynd ber ég hana fram í nafni þingflokksins. Við teljum mjög mikilvægt að strax verði tekið á málefnum þessara hópa, kvenna og barna. Núna, þessa dagana, eru konur og börn að leita til kvennaathvarfa vegna alvarlegra vandamála sem upp hafa komið í þeirra lífi.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á, að á endanum snýst þetta að verulegu leyti um peninga. Hún tók dæmi um að fjárskortur hefði valdið því að skólar sinntu ekki þeirri skyldu sinni að kenna börnunum íslensku eða uppfræða þau eins og þeim ber að gera.

Ég vil að lokum taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Við ættum, kannski öðrum þjóðum fremur, að hafa skilning á því að erlent fólk sem flytur til Íslands, sest að og gerist Íslendingar, vilji viðhalda menningu sinni, eða alla vega sýna henni virðingu. Ætli margar þjóðir hafi gengið eins langt í því efni og einmitt okkar þjóð? Nægir þar að vísa til Vesturheims þangað sem við gerum út forseta og aðra sendimenn að sækja Íslendingabyggðir heim.

Herra forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég leyfi mér að boða það að þetta er fyrsta þingmálið af fleiri þingmálum sem þingflokkur okkar, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, leggur fram um málefni sem tengjast innflytjendum á Íslandi vegna þess að við höfum afráðið að sinna þessum málaflokki sérstaklega.