Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 13:34:38 (938)

1999-11-02 13:34:38# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Umsvif í alþjóðasamstarfi aukast örar en nokkru sinni fyrr. Sú staðreynd kallar á að við Íslendingar sinnum þeim málaflokki í ríkari mæli en áður. Hnattvæðingin eða alþjóðavæðingin sneiðir ekki hjá okkur. Þar erum við og viljum vera virkir þátttakendur. Útrás íslenskra fyrirtækja og fjárfestingar þeirra erlendis eru dæmi um breytt umhverfi. Allur heimurinn er vettvangur íslenskra athafna og Ísland er ekki eyland í merkingunni einangrað land. Alþjóðlegir straumar leika hér um. Þeir eru undirstaða framfara með sama hætti og hafstraumarnir gera landið byggilegt.

Alþjóðlegum fundum, sem fjalla um íslenska hagsmuni, fjölgar stöðugt. Við eigum ekki kost á að sitja þar hjá. Enginn gætir hagsmuna okkar nema við sjálf. Það er mikið verk og kostnaðarsamt að taka þátt í slíku samstarfi. Í því efni hefur utanrrn. mikilvægu forustuhlutverki að gegna. Þess gætir þó í auknum mæli að alþjóðlegt samstarf snerti starfssvið margra ráðuneyta enda tekur það til allra sviða samfélagsins. Það gerir samvinnuna flóknari og pólitískari og að henni koma öll fagráðuneytin. Málaflokkar eins og umhverfis- og auðlindamál varða í vaxandi mæli þjóðarhagsmuni og öryggi ríkja beint og óbeint.

Hnattvæðingin mun halda áfram. Samfara henni eykst gildi okkar hefðbundnu alþjóðasamvinnu, t.d. á sviði Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og Evrópu- og Norðurlandasamstarfs.

Það gefur augaleið að í ræðu sem þessari get ég tímans vegna ekki fjallað um alla þætti utanríkismála. Ég hef þess vegna ákveðið að dreifa yfirlitsskýrslu um utanríkismál með vorræðu minni árið 2000, líkt og gert var 4. nóvember 1997.

Fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins ber hæst á sviði Evrópumála. Öll starfsemi ESB tekur mið af þessu. Stækkunarferlið mun einnig hafa áhrif á EFTA-ríkin sem utan standa. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú lagt fram tillögu um að ekki verði lengur gert upp á milli þeirra sex ríkja sem formlega er samið við og hinna sex sem verið hafa í biðstöðu. Búast má við að gengið verði frá því á leiðtogafundinum í Helsinki að samið verði samhliða við tólf ríki en tengsl styrkt við Tyrkland án samningaviðræðna.

Bjartsýnar áætlanir sumra ríkja um aðild að ESB strax árið 2002--2003 eru ekki raunhæfar. Það verður vart fyrr en undir lok næsta árs sem það fer að skýrast hvenær fyrstu ríkin fá inngöngu. Til viðbótar má nefna að ESB verður sjálft að gera upp við sig hvaða breytinga er þörf á eigin innviðum áður en af stækkun verður. Milliríkjaráðstefna um það hefst á næsta ári. Þótt stefnt sé að því að henni ljúki fyrir þar næstu áramót er það alls óvíst. Það er þó ekki seinna vænna fyrir okkur að búa okkur undir að taka afstöðu til samskipta við mun stærra Evrópusamband.

Enn eru breytingar fram undan sem hafa áhrif á stöðu ríkja sem haft hafa umfangsmikið samstarf við Evrópusambandið. Má þar nefna að sameiginlegur gjaldmiðill, evran, kemst á að fullu árið 2002. Þó að Ísland hafi aldrei sótt um aðild og engin slík umsókn sé í undirbúningi þá hefur aðild ekki verið hafnað. Ákvarðanir samstarfsríkja okkar í EFTA á næstu árum hafa áhrif á þá stöðu. Ég hef því ákveðið að láta gera hlutlausa úttekt þar sem farið verður yfir starf Evrópusambandsins lið fyrir lið. Þar er hægt að draga fram hver staða Íslands yrði án samninga, því næst hvernig EES-samningurinn, samstarfssamningur um Schengen og aðrir þeir samningar, sem gerðir hafa verið, nýtast okkur og loks hver bein áhrif yrðu ef Ísland væri aðildarríki. Vonast ég til að geta lagt úttektina fyrir ríkisstjórn fyrri hluta næsta árs. Ekki er ætlunin að setja fram beinar tillögur heldur skýra stöðu okkar við breyttar aðstæður. Úttekt af þessu tagi ætti að skapa grundvöll fyrir upplýsta umræðu á næstu árum.

Framkvæmd EES-samningsins hefur gengið allvel og raunar betur en margir þorðu að vona eftir að EFTA-ríkjunum fækkaði. Veik staða framkvæmdastjórnar ESB hefur reynst bagaleg því hún er milligönguaðili EFTA/EES-ríkjanna um öll mál á samningssviðinu þar sem við höfum ekki aðgang að pólitískum umræðuvettvangi aðildarríkja ESB. Róðurinn hefur reynst þungur í þeim tilvikum þar sem ástæða þykir til að breyta ákvörðunum ESB eða laga þær sérstaklega að íslenskum aðstæðum áður en þær eru felldar inn í EES-samninginn. Á móti kemur þó að auðveldara hefur reynst að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við tæknilegan undirbúning á byrjunarstigi.

Teknar hafa verið upp viðræður við framkvæmdastjórnina um bókun 9. Þar hafa verið settar fram kröfur um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir við heldur dræmar undirtektir. Reynt verður að þoka málum áleiðis. Einnig hefur verið rætt við ESB um tollalækkanir á íslenskum hestum. Árangur þar fer eftir því hvort hægt er að ganga frá gagntilboði um tollalækkanir fyrir ESB-afurðir inn á íslenskan markað. Viðræður um bókun 3 varðandi unnar landbúnaðarafurðir, sem náðist ekki að ljúka á sínum tíma, eru nú á lokastigi og ætti hún því að geta tekið gildi á næsta ári.

Á grundvelli samstarfssamnings Íslands og Noregs við Evrópusambandið, sem kenndur er við Schengen, hefur ríkjunum tveimur gefist kostur á að taka þátt í umræðu og starfi aðildarríkja ESB um landamæraeftirlit og tengd málefni. Það er flókið verkefni að skilgreina nákvæmlega hvar og hvenær Ísland og Noregur skuli hafa aðgang á grundvelli samningsins og upp hafa komið nokkur álitaefni. Í heild hefur starfið þó gengið vel.

Þegar litið er um öxl í öryggis- og varnarmálum blasir eftirfarandi við: Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin hafa undanfarna fimm áratugi tryggt öryggi lands og þjóðar. Breytingar sem orðið hafa í öryggismálum á þessum áratug leysa íslensk stjórnvöld hvorki undan þeirri skyldu að tryggja landvarnir né heldur gefa þær tilefni til að varpa hornsteinum varnarstefnu Íslands fyrir róða. Öryggisumhverfi heimshluta okkar er enn í mótun. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að taka fullan þátt í mótun þess umhverfis og axla þá ábyrgð sem því fylgir með virkri þátttöku í alþjóðlegu varnar- og öryggismálasamstarfi.

Eins og fram kemur í greinargerð utanrrn. um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót er stefnt að því að gera þátttöku Íslendinga í vörnum landsins virkari. Þegar hafa verið stigin fyrstu skref í þá átt. Má þar nefna smíði 3000 tonna varðskips sem mun fyrir utan hefðbundna landhelgisgæslu taka þátt í æfingum og sjóferðaeftirliti í samstarfi við varnarliðið. Þátttaka Íslands í varnaræfingunni Norðurvíkingi hefur verið efld. Hlutur utanrrn. og Landhelgisgæslunnar var meiri nú en verið hefur. Sprengjuleitarsveit Gæslunnar tók þátt í æfingunni í fyrsta sinn. Sérsveit ríkislögreglustjóra var líka með í Norðurvíkingi í fyrsta sinn með beinum hætti. Næsta sumar fer almannavarnaæfingin Samvörður fram hér á landi í annað sinn undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Þar verður áhersla lögð á björgun úr hafsnauð.

Í þeirri viðleitni að stuðla að faglegri umræðu hérlendis um varnarmál verður næsta haust haldin ráðstefna um framtíð öryggismála á Norður-Atlantshafi á vegum utanrrn. og herstjórnar Atlantshafsbandalagsins.

Gildistaka Amsterdam-samningsins í maí sl. veldur þáttaskilum í öryggis- og varnarmálum Evrópu á næstu árum. Rýmkun ákvæða samningsins um nýjar öryggismálastofnanir ESB verður rædd innan ESB á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að viðeigandi ákvarðanir verði teknar á leiðtogafundi ESB í Helsinki í desember. Það er markmið ESB að efla sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu þannig að jafnóðum verði mótuð sameiginleg varnarmálastefna og í þeim tilgangi verði Vestur-Evrópusambandið (VES), eða ákveðin verkefni þess felld inn í ESB. Framkvæmd þessara ákvæða samningsins hófst á leiðtogafundi ESB í Köln í júníbyrjun þar sem m.a. var lagður grunnur að stofnun sérstakrar öryggismálanefndar og hermálanefndar. Atburðarásin í fyrrverandi Júgóslavíu, nú síðast í Kosovo, hefur afhjúpað misræmið sem er á milli varnarviðbúnaðar Evrópuríkja, þar á meðal samanlagðra útgjalda til varnarmála, og getu þeirra til að ráðast í sjálfstæðar aðgerðir ef þörf krefur. Jafnframt hefur vakið athygli hversu Bandaríkin hafa axlað stóran hluta þeirra byrða sem hafa fylgt aðgerðunum í fyrrverandi Júgóslavíu. Viðleitni til breytinga miðast ekki eingöngu við að styrkja sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB. Hún sýnir líka vilja til að leiðrétta misræmið.

Jafnhliða þessari þróun innan ESB hafa einstök aðildarríki þess sett fram tillögur um hvernig gera megi Evrópuríkjum kleift að axla meiri ábyrgð í öryggis- og varnarmálum. Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur verið ákveðið að efla frekar evrópskt öryggis- og varnarmálasamstarf, m.a. til stuðnings hugsanlegum aðgerðum ESB.

[13:45]

Óvíst er hvort leiðtogum ESB-ríkja auðnast í Helsinki að fjalla um þátttökurétt annarra ríkja í störfum nýrra öryggismálastofnana. Á hinn bóginn er æskilegt að ákvarðanir um slíkar stofnanir feli frá upphafi í sér ákvæði um þátttökuréttinn. Þannig mætti tryggja beina þátttöku án skerðingar á sjálfstæðri ákvarðanatöku ESB. Með tilhögun í líkingu við aukaaðildina að VES gæti ESB stuðlað að víðtækri samstöðu um evrópska öryggis- og varnarmálastefnu, þar á meðal stuðningi við lögmæti nauðsynlegra aðgerða. Þá auðveldar þátttökuréttur evrópskra bandalagsríkja utan ESB allt samstarf Atlantshafsbandalagsins og ESB og kemur í veg fyrir óviðunandi flokkadrætti innan bandalagsins.

Af ofangreindum ástæðum hefur viðeigandi sendiráðum Íslands í aðildarríkjum ESB verið falið að kynna sjónarmið íslenskra stjórnvalda á nýjan leik fyrir leiðtogafundinn í Helsinki. Utanríkisráðherrum aukaaðildarríkja VES hefur verið boðið til óformlegs fundar með starfsbræðrum frá ESB-ríkjum nú næstu daga. Sjónarmið okkar endurspegla vilja til að standa vörð um íslenska hagsmuni. Ísland er Evrópuríki sem hefur lagt sitt af mörkum til sameiginlegs öryggis og varna álfunnar í rúma hálfa öld og verðskuldar sæti við borðið þar sem fjallað verður um evrópsk öryggis- og varnarmál þegar til lengri tíma er litið. Það þýðir ekki að sameiginlegar varnarskuldbindingar Atlantshafsbandalagsins séu léttvægari en áður, heldur er þetta þvert á móti leiðin til að varðveita og styrkja Atlantshafstengslin.

Margir hafa haft á orði að æskilegt væri að gæta samræmis í fjölgun aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og ESB. Þótt sú hafi ekki orðið raunin er hugsanlegt að mótun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu innan ESB geti haft áhrif á stækkunarferli beggja samtaka. Eftir sem áður leggjum við áherslu á að Eystrasaltsríkin þrjú verði á meðal þeirra ríkja sem næst verður boðin aðild.

Fullyrða má að leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Washington hafi sætt einna mestum tíðindum á sviði öryggis- og varnarmála frá því að síðast var fjallað um utanríkismál á Alþingi. Fundurinn sýndi órofa samstöðu aðildarríkja og samstarfsríkja þegar aðgerðir bandalagsins gegn sambandslýðveldinu Júgóslavíu stóðu sem hæst, endurskoðuð öryggismálastefna bandalagsins var samþykkt í aðdraganda nýrrar aldar, stækkunarferli bandalagsins var staðfest með ákvörðunum um hagnýtan undirbúning umsóknarríkja og komið var til móts við Evrópusambandið á sviði öryggis- og varnarmála.

Herra forseti. Ísland leiðir Norðurlandasamstarfið á þessu ári. Formennskan í Norðurlandasamstarfinu gefur okkur kærkomið tækifæri til aukinna áhrifa. Við höfum haldið fundi ráðherra og embættismanna. Í tengslum við þá hefur fjöldi fólks sótt okkur heim en slíkar heimsóknir treysta vináttuböndin.

Við höfum haldið tvo norræna utanríkisráðherrafundi. Á fund sem haldinn var á Egilsstöðum komu jafnframt utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Kanada. Þátttaka gestanna endurspeglar samstarfið sem Norðurlandasamstarfið hefur getið af sér. Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Norðurskautsráðið eru af þessum meiði.

Norðlæg vídd Evrópusambandsins hefur á undanförnum mánuðum verið áberandi í umræðunni um starfsemi Barentsráðsins og Eystrasaltsráðsins enda er ljóst að áhersluatriði eru hliðstæð. Það er gleðiefni að ESB skuli bjóða ríkjum á norðurslóðum sem eru ekki meðlimir að taka þátt í stefnumótun um hina norðlægu vídd. Sérstakur ráðherrafundur um hana er fyrirhugaður í Helsinki 12. þessa mánaðar.

Barentsráðið og Eystrasaltsráðið geta verið ESB innan handar við að framfylgja stefnu um hina norðlægu vídd. Sama á við um Norðurskautsráðið. Starfsemi þess á sviði umhverfismála, áður þekkt sem Rovaniemi-ferlið, er allviðamikil og ítarleg. Þá er þess að gæta að Atlantshafstengslin sem koma til af þátttöku Bandaríkjanna og Kanada í Norðurskautsráðinu hljóta að vega þungt frá pólitísku sjónarhorni. Fyrir okkur er æskilegt að miða að því að koma á tengslum milli Norðurskautsráðsins og hinnar norðlægu víddar ESB.

Staða Norðurlanda í Evrópu er sterk. Þau hafa á þessu ári leitt þrjár stórar Evrópustofnanir. Við Íslendingar höfum farið fyrir Evrópuráðinu, Norðmenn gegna formennsku í ÖSE og Finnar í ESB. Við höfum saman nýtt okkur þessa stöðu með stuðningi Dana og Svía, enda einstakt tækifæri til að hafa meiri áhrif á málefni Evrópu.

Við Íslendingar viljum efla hin marghliða tengsl við Rússland. Samstarf við Rússa er nú orðið fastur liður í svæðasamstarfi Norðurlandanna innan ráðanna þriggja sem ég nefndi áðan. Þeim hefur líka verið boðin þátttaka í fundum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, til dæmis fundum utanríkis- og varnarmálaráðherra. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Þýskalands í Berlín nýlega var einmitt lögð áhersla á mikilvægi þessa svæðisbundna samstarfs, ekki síst með tilliti til Rússlands.

Sex mánaða formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins er senn að ljúka. Ég vil láta í ljós sérstakt þakklæti mitt til þingmanna og jafnframt fjölmiðla fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt því starfi. Ein af skyldum formennskuríkis er að að hafa forustu um málefni ráðsins og vera í forsvari fyrir því gagnvart ríkjum og stofnunum. Af þessum ástæðum heimsótti ég Bosníu-Hersegóvínu og Úkraínu og tók þátt í Sarajevo-ráðstefnunni um stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu.

Fjárlög Evrópuráðsins hafa ekki hækkað að raungildi undanfarin ár. Ljóst er að Mannréttindadómstóllinn þarf á hærri fjárveitingum að halda til að sinna þeim málum sem nú bíða úrlausnar. Málunum fjölgar vegna nýrra aðildarríkja og þeirrar staðreyndar að þegnar ríkjanna vita nú betur en áður um tilveru dómstólsins og skyldur aðildarríkjanna samkvæmt mannréttindasáttmálanum. Í formennskutíð okkar hefur verið reynt að finna lausn á þessu. Ég er bjartsýnn á að hún finnist á næstunni.

Evrópuráðið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) vinna að sumu leyti að sömu verkefnum á sviði mannréttindamála en ÖSE sinnir líka mörgum öðrum málum. Brýnt er að forðast tvíverknað í störfum þessara stofnana eins og margoft hefur komið fram í umræðum á hv. Alþingi.

Brátt hefur Evrópusambandið gerð sérstaks mannréttindasáttmála ESB. Þessi sáttmáli á ekki að veikja störf Evrópuráðsins og ÖSE að mannréttindamálum. Mannréttindadómstóll Evrópu á eftir sem áður að gegna hlutverki sínu og tryggja lagalega einingu um grundvöll mannréttinda í álfunni. Á þetta atriði lagði ég sérstaka áherslu á samráðsfundum Evrópuráðsins og ESB nú í október.

Hartnær aldarfjórðungur er liðinn frá því að Helsinki-sáttmálinn var samþykktur og grunnurinn lagður að starfsemi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Starfsemi stofnunarinnar hefur margfaldast enda tekur starf hennar til öryggismála í víðum skilningi: mannréttindamála, afvopnunarmála, aðgerða á hernaðarsviðinu, menningarmála og efnahags- og umhverfismála.

Eftir tvær vikur verður leiðtogafundur ÖSE haldinn í Istanbúl og standa vonir til að þar verði unnt að samþykkja þrjú skjöl sem styrkja átakavarnir og hlutverk samtakanna í að koma á friði og styrkja stöðugleika í álfunni. ÖSE eru einu samtökin sem öll Evrópuríki og ríki Norður-Ameríku eiga aðild að.

Herra forseti. Ég hef áður sagt á hinu háa Alþingi að nauðsynlegt sé að fylgjast vel með þeirri umhverfismálaumræðu sem á sér stað innan Sameinuðu þjóðanna. Inn í hana fléttast umfjöllun um auðlindamál, þar á meðal málefni hafanna, en ekki er gerður greinarmunur á umhverfismálum annars vegar og auðlindamálum hins vegar. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun kom saman í vor og fjallaði m.a. um málefni hafanna. Ísland tók þátt umræðunni og stóð fyrir vel heppnaðri kynningu á stjórnun íslenskra fiskveiða og afstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi til umhverfismála. Í kjölfarið var ákveðið að Ísland byði sig fram til setu í nefndinni á næsta ári.

Í upphafi 54. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir, vakti Kofi Annan máls á nauðsyn þess að ná sátt um hvernig og hvenær hið alþjóðlega samfélag geti gripið inn í átök sem eiga sér stað innan landamæra fullvalda ríkja. Þetta er mjög aðkallandi úrlausnarefni í ljósi þess að flest alvarleg átök eiga sér nú stað milli stríðandi fylkinga innan einstakra ríkja en ekki á milli ríkja. Óbreyttir borgarar eru ekki aðeins fórnarlömb átaka heldur beinast stríðsaðgerðir oft beinlínis gegn þeim. Fullveldisréttur ríkja er ein af grundvallarreglum þjóðaréttarins og þarf að umgangast þann rétt með það í huga. Hins vegar er ljóst að meginreglur þjóðaréttar um mannréttindi eru ófrávíkjanlegar og altækar. Þessar meginreglur geta rekist harkalega á eins og sýndi sig í Kosovo.

Við getum ekki setið hjá aðgerðalaus þegar stórfelldir glæpir á borð við fjöldamorð eru framdir. Óviðunandi er að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna geti ekki komið sér saman um ákvarðanir til lausnar á slíku ástandi. Norðurlöndin hafa tekið virkan þátt í umræðu um endurbætur á skipulagi og skipan öryggisráðsins en því miður hefur hún ekki borið ávöxt fram að þessu. Tímabæru frumkvæði Kofis Annan í þessu sambandi verður að fylgja eftir og ná sátt um niðurstöðu. Niðurstaðan um íhlutunarrétt hins alþjóðlega samfélags á grundvelli mannréttinda og mannúðarlaga skiptir sköpum fyrir framtíð Sameinuðu þjóðanna sem bera aðalábyrgð á að tryggja heimsfrið og öryggi. Stofnunin þarf að laga sig að breyttu umhverfi og marka stefnu um það hvernig hún ætlar að taka á átökum þar sem óbreyttir borgarar njóta ekki verndar eigin stjórnvalda en eru þess í stað ofsóttir og drepnir. Brýnt er að huga að hvernig hægt er að styrkja fyrirbyggjandi hlutverk samtakanna sem Kofi Annan hefur gert að forgangsatriði.

Unnið hefur verið skipulega að því undanfarin missiri að styrkja samstarf Íslands við Matvæla- og landbúnaðarstofnunina FAO sem hefur aðsetur í Róm. Margvísleg störf stofnunarinnar á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs eru Íslendingum mikilvæg. Má þar nefna umræður um sérstöðu landbúnaðar í heimsviðskiptum og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda í krafti öflugrar fiskveiðistjórnunar.

Til þess að fylgja þessum hagsmunum frekar eftir sækist Ísland nú í fyrsta sinn eftir setu fyrir hönd Norðurlandanna allra í stjórnarnefnd FAO. Á næstu dögum verður valið í nefndina til þriggja ára. Í tengslum við væntanlega stjórnarnefndarsetu hefur verið ákveðið að ráða sérstakan staðarfulltrúa til starfa í Róm.

Þá hefur ríkisstjórnin í undirbúningi, í samstarfi við FAO, að standa fyrir ráðstefnu um sjálfbærar fiskveiðar á Íslandi árið 2001. Leitast verður við að fjalla um flestar hliðar fiskveiða og þátt þeirra í fæðuöflun mannkynsins og áhrif þeirra á vistkerfi jarðar. Niðurstaða ráðstefnunnar gæti orðið leiðandi stefnuyfirlýsing sem renndi styrkum stoðum undir þau sjónarmið sem Ísland hefur haldið á lofti.

Þessa dagana stendur yfir í Bonn fimmta aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Þar er fjallað um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar og unnið að undirbúningi þess að sjötta aðildarríkjaþingið, sem fram fer árið 2001, geti samþykkt reglur um kvótaviðskipti og aðra þætti sveigjanleikaákvæðanna sem svo eru nefnd.

Markmið okkar á þeim fundum, sem nú standa yfir, er að fá það viðurkennt að hinni tæknilegu umræðu um íslensku tillöguna sé lokið þannig að unnt verði að taka ákvörðun í málinu á næsta aðildarríkjaþingi. Tillagan á að tryggja að við getum haldið áfram að nýta okkar hreinu, endurnýjanlegu orkulindir og þannig lagt fram skerf til lífvænlegra loftslags á jörðinni.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna, sem tók gildi í mars 1995, hefur verið fullgiltur af 180 ríkjum. Fram til þessa hafa 84 ríki undirritað Kyoto-bókunina, sem er bókun við samninginn frá 1997, en aðeins 16 fullgilt hana. Ekkert OECD-ríkjanna hefur fullgilt bókunina og ekkert þeirra ríkja sem tekið hafa á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni hafa uppi áform um að fullgilda hana meðan óráðið er um framkvæmd sveigjanleikaákvæðanna, framfylgd og viðurlög við að brjóta gegn bókuninni.

Herra forseti. Árið 1999 er fyrsta árið sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aukið fé til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands kemur til framkvæmda. Aukningin var 57 milljónir kr. frá 1998 til 1999 og er aftur gert ráð fyrir 60 milljóna kr. aukningu í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2000. Stefnt er að aukinni starfsemi í heilbrigðis- og félagsmálum og meiri samvinnu við frjáls félagasamtök.

Þrátt fyrir að myndarlega hafi verið tekið á í fjárveitingum til tvíhliða aðstoðar við þróunarlönd, þ.e. verkefna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, nánast þreföldun framlaga á árabilinu 1998--2003, er Ísland enn þá eftirbátur nágrannaríkjanna í framlögum til þróunarmála.

Afar brýnt er að gefa eftir skuldir fátækustu ríkja heims og átakið til þess var aðalumfjöllunarefni ársfundar Alþjóðabankans nú í haust. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka þátt í átakinu af fullri einurð eins og aðrar Norðurlandaþjóðir.

Mörg fátækustu ríki hafa lokast inni í vítahring afborgana og vaxtagreiðslna sem þau hafa alls ekki ráðið við. Markmið átaksins er að rjúfa þennan vítahring. Ég geri mér vonir um að átakið hjálpi ekki einvörðungu fátæku fólki til bjargálna heldur örvi það líka viðskipti í heiminum. Framlag okkar til átaksins nemur um það bil 200 milljónum króna sem fara að mestu í gegnum Alþjóðabankann á nokkrum árum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í vor kom fram skýr vilji til að halda áfram að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutningsgreina. Verðmæt sérþekking okkar á góða möguleika úti í hinum stóra heimi ef hún fær stuðning. Þetta var haft að leiðarljósi, m.a. með ráðningu viðskiptasérfræðinga hjá sendiráðum okkar á mikilvægustu mörkuðunum. Starf þeirra hefur þegar skilað áþreifanlegum árangri.

Lögð hefur verið áhersla á að samræma starfsemi þeirra opinberu aðila sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir atvinnulífið. Leitast hefur verið við að efla samráð milli starfsmanna þeirra stofnana sem koma að slíkum málum. Þetta kom m.a. fram í sameiginlegri þátttöku viðskiptaþjónustu utanrrn. og Útflutningsráðs á sjávarútvegssýningunni hér á landi í september sl. og samstarfi viðskiptaþjónustunnar og Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum í kynningarmálum. Með samstarfssamningi við Byggðastofnun hefur verið reynt að tryggja að þjónusta við útflytjendur nái einnig til fyrirtækja á landsbyggðinni.

Samkeppnin um athygli fólks gerist æ harðari. Í samstarfi viðskiptaþjónustu utanrrn. og Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum var gerð könnun sem leiddi ljós að Ísland var nánast óskrifað blað í hugum þarlendra. Í landkynningu er um óplægðan akur að ræða. Hefur verið kosið að tengja saman orðin Ísland og náttúra undir vörumerkinu Iceland Naturally og verður árlega til þess varið 70 millj. kr. á næstunni. Íslensk fyrirtæki í Bandaríkjunum leggja einnig til umtalsverða fjármuni.

Gert er ráð fyrir að nýrri lotu samningaviðræðna verði ýtt úr vör á þriðju ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem haldin verður í Seattle í Bandaríkjunum dagana 30. nóvember til 3. desember nk. Viðamestu verkefni komandi viðræðna verða endurskoðun landbúnaðarsamningsins og samningar um frjáls þjónustuviðskipti. Önnur væntanleg verkefni eru höfunda- og hugverkaréttindi og lækkun tolla á iðnaðarvörum og sjávarafurðum.

Af hálfu nokkurra aðildarríkja WTO, þar á meðal Íslands, hefur áhersla verið lögð á að viðskipta- og umhverfismál verði til umfjöllunar í næstu samningalotu. Sú umræða gæti reynst okkur einna mikilvægust. Þar verður t.d. fjallað um sjálfbæra þróun og skynsamlega nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Tækifæri til að hafa áhrif á framvinduna gætu skapast vegna reynslu okkar á sviði verndunar, uppbyggingar og nýtingar sjávarafla. Við höfum lagt áherslu á að umræðan leiði til einhvers konar samnings á þessu sviði. Við undirbúning að ráðherrastefnunni í Seattle höfum við beitt okkur fyrir því að í slíkum samningi yrðu ákvæði um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Þar höfum við bent á hvernig ríkisstyrkir hafi samkeppnishamlandi áhrif og geti stuðlað að rányrkju. Hugmyndir Íslands hafa fengið stuðning margra þjóða.

Herra forseti. Fórnfúst starf ræðismanna Íslands erlendis verður seint ofmetið. Tilvist og starfsemi þeirra er mikilvæg fyrir fámenna utanríkisþjónustu og er brýnt að efla tengsl utanrrn. og hinna 215 kjörræðismanna okkar. Mikilvægt er að auka tengsl ræðismanna við land og þjóð. Í því skyni er nú í undirbúningi fimmta ræðismannaráðstefnan sem haldin verður á Íslandi árið 2001.

Íslensk utanríkisþjónusta á sextíu ára starfsafmæli hinn 10. apríl næstkomandi. Ráðuneytið mótar nú tillögur um á hvern hátt þess verði minnst. Ég hef áhuga á því að nota það tilefni til að upplýsa betur um hlutverk utanríkisþjónustunnar og þá hagsmuni sem henni er falið að standa vörð um.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að nýta sér árþúsundamótin með margvíslegum hætti. Þetta á m.a. við um þátttöku Íslands í EXPO 2000 í Hannover í Þýskalandi sem er eitt okkar mikilvægustu viðskiptalanda. Þar njóta íslensk málefni velvildar. Yfirskrift sýningarinnar, maður, tækni, náttúra, hentar íslenskri ásjónu sérlega vel. Íslenskt hugvit og handverk munu njóta sín á sýningarsvæðinu. Þá verður haldið veglega upp á árþúsundamótin í Vesturheimi og minnst þar einkum tveggja stórviðburða frá árinu 1000, landafunda í Vesturheimi og kristnitöku. Utanríkisþjónustan hefur lagt lið þeim fjölmörgu viðburðum sem ráðgerðir eru í Bandaríkjunum og Kanada á vegum landafundanefndar. Um er að ræða eitt metnaðarfyllsta verkefni okkar fyrr og síðar á sviði landkynningar jafnframt því að áhersla er lögð á að treysta tengsl við fólk þar af íslensku bergi brotið.

Ísland verður áfram í þjóðbraut ef við viljum það sjálf. En við getum einnig einangrast ef við höldum ekki vöku okkar. Framsækin utanríkisstefna er ein af forsendum velmegunar og framfara. Við megum ekki láta þröngsýni og hræðslu við að taka þátt í samstarfi ríkja vera ráðandi í gjörðum okkar. Djörfung og víðsýni hefur oftast einkennt íslenska utanríkisstefnu. Ef sá andi fær að ríkja við stefnumótun í nánustu framtíð mun okkur vel farnast.