Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:06:54 (939)

1999-11-02 14:06:54# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá ræðu og skýrslu sem hann hefur flutt hér. Hins vegar er alveg rétt hjá honum að það er takmarkaður tími, 30 mín. hjá hæstv. ráðherra og 15 mín. hjá öðrum hv. þm. til að ræða þetta yfirgripsmikla mál. Því má vænta þess að á þessu þingi eins og oftast áður komi einstakir þættir utanríkismála til nánari umræðu en hér er hægt að viðhafa. Ég verð tímans vegna að láta mér nægja að drepa á nokkur atriði, bæði af því sem sagt er í ræðu hæstv. utanrrh. og eins því sem hann hefur látið ósagt í ræðu sinni.

Ég vil taka undir þau orð sem hæstv. ráðherra mælir í ræðu sinni að utanrrn. hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, að gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga á erlendum vettvangi, og láta það koma fram að þetta litla og tiltölulega fámenna ráðuneyti hefur í þeim efnum unnið feikigott starf á undanförnum árum, þar sem Ísland hefur farið með forustu í ýmsum fjölþjóðasamtökum sem Íslendingar hafa átt aðild að, nú síðast í Evrópuráðinu og á vettvangi norrænnar samvinnu. Það hefur komið í ljós æ ofan í æ að það fólk sem vinnur við þessi störf á vegum utanrrn. skilar góðri vinnu og það er full ástæða til að þakka þeim fyrir það hér úr ræðustóli á Alþingi.

Það er mjög athyglisvert og lýsir breyttum viðhorfum að fyrsta málið sem hæstv. utanrrh. tekur á dagskrá í ræðu sinni, og ber því að líta á sem mikilvægasta málið að hans áliti í utanríkismálum Íslendinga, eru Evrópumálefnin. Hann raðar þeim efst á listann sem segir a.m.k. sögu um það hvert mat hans er á mikilvægi þess samstarfs. Það er auðséð, svo valið sé orð sem er mikið í tísku hjá ýmsum, að hæstv. utanrrh. hefur tekið Evrópuvírusinn. Út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja.

Í ræðu sinni um Evrópumálin fjallar hæstv. ráðherra m.a. um umfangsmikið samstarf við Evrópusambandið og nefnir þá sérstaklega til sögunnar að sameiginlegur gjaldmiðill, evran, komist að fullu á árið 2002. Síðan segir hæstv. ráðherra orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þó að Ísland hafi aldrei sótt um aðild og engin slík umsókn sé í undirbúningi þá hefur aðild ekki verið hafnað.``

Þarna á hann við aðild að myntsamstarfinu. Svipuð ummæli viðhafði hæstv. forsrh. á fundum erlendis ekki alls fyrir löngu. Þetta eru vissulega athyglisverðar yfirlýsingar. Því eins og öllum er ljóst getur ekkert ríki orðið aðili að þessu samstarfi nema það sé jafnframt aðili að Evrópusambandinu. Að vísu gæti Ísland einhliða tekið þá ákvörðun að miða gengi krónunnar við gjaldmiðilinn evru. En það er væntanlega ekki sú aðild að samstarfinu sem hæstv. utanrrh. eða hæstv. forsrh. eiga við, heldur er ómögulegt að skilja orð þeirra öðruvísi en svo að þarna vísi þeir til þess að aðild að myntsamstarfinu, sem byggist á aðild að Evrópusamstarfinu hafi ekki verið hafnað, það sé með öðrum orðum á dagskrá. Það tel ég mjög merkilega yfirlýsingu, bæði frá hæstv. utanrrh. og ekki síst hjá hæstv. forsrh. sem hefur látið þau orð falla við annað tækifæri að aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá á meðan hann sitji í stól forsrh. Með öðrum orðum, að því frágengnu sé sú aðild ekki útilokuð. Það eru vissulega nokkur tíðindi að slík orð skuli falla hjá báðum hæstv. ráðherrum.

Þá fagna ég því mjög sem fram kemur hjá hæstv. utanrrh. að hann hafi ákveðið að láta gera hlutlausa úttekt þar sem farið verði yfir starf Evrópusambandsins lið fyrir lið, þar sem hæstv. ráðherra segir að dregið verði fram hver staða Íslands yrði án samninga, því næst hvernig EES-samningurinn, samstarfssamningurinn um Schengen og aðrir þeir samningar sem gerðir hafa verið nýtast okkur og loks hver bein áhrif yrðu ef Ísland væri aðildarríki að Evrópusamstarfinu.

Hæstv. ráðherra er hér að segja nákvæmlega það sama og Samfylkingin lagði til og gerði að kosningastefnu sinni. Með öðrum orðum, að ríkisstjórnin tæki á sig það verkefni að fara yfir þá kosti sem Íslendingar eiga í málunum, lýsa kostum þeirra og göllum, opna þannig fyrir umræðu um Evrópumálin, taka þau á dagskrá með þjóðinni og gera henni fært að taka á grundvelli vitrænna umræðna ákvörðun um hvort og hvenær sækja skyldi um aðild. Þarna er hæstv. utanrrh. að leggja til nákvæmlega sömu starfsaðferðirnar og Samfylkingin lagði til í kosningabaráttunni og ég fagna því. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir því að í þeirri hlutlausu úttekt, sem hann ætlar að beita sér fyrir að fram fari, verði m.a. leitað álits og afstöðu þeirra aðila sem hafa tekið mjög virkan þátt í þessu samstarfi á vettvangi Evrópusamvinnunnar og EES-samningsins, t.d. þeirra samtaka sem hafa tekið þátt í samvinnuþáttum sem varða hagsmuni neytenda og verkafólks sérstaklega, þ.e. verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og Neytendasamtakanna hins vegar.

Það sem hefur nefnilega komið í ljós í sambandi við Evrópusamstarfið er að það er ekki aðeins mikilvægt fyrir okkur á sviði atvinnumála, sviði útflutningsmála og útflutningsviðskipta, heldur hefur þetta samstarf lagt grundvöllinn að gjörsamlega allri íslensku samkeppnislöggjöfinni eins og hún leggur sig, komið í veg fyrir hringamyndun og óeðlilega starfsemi á markaði og tryggt neytendum þar með þann rétt sem neytendur á Íslandi voru sviknir um í mörg ár og kom ekki til Íslands fyrr en fyrir tilverknað Evrópusamstarfsins og Evrópusamvinnunar mörgum árum eftir það sem gerðist hjá öðrum nálægum löndum. Með sama hætti hefur verkalýðshreyfingin á Íslandi gert sér það ljóst að þetta samstarf hefur tryggt íslensku verkafólki ýmisleg félagsleg réttindi sem hafði tekið verkalýðshreyfinguna jafnvel áratugi að berjast fyrir að fá fram án nokkurs árangurs.

Það er mjög athyglisvert þegar maður hugsar til baka að fyrir nokkrum mánuðum kom út á vegum Iðju, sem þá var sjálfstætt verkalýðsfélag í Reykjavík fyrir sameininguna í núverandi Einingu, rit um mikilvægi Evrópusamstarfs fyrir réttindi launafólks. Í þessu fræðsluriti frá Iðju skrifaði formála, Guðmundur, formaður Iðju, sem var eftir því sem ég man best einn af helstu andstæðingum EES-samningsins á sinni tíð. En niðurstaða hans í inngangi að þessu riti er alveg þveröfug því hann kemst að þeirri niðurstöðu að þetta samstarf hafi orðið íslensku verkafólki til mikilla réttindabóta. Þess vegna vík ég þeim orðum til hæstv. ráðherra, hvort hann sé ekki reiðubúinn, í þeirri vinnu sem fram á að fara á vegum ráðuneytis hans um úttekt á stöðu Íslands gagnvart Evrópu, að leita álits ekki bara aðila úr atvinnulífinu heldur ekki síður aðila eins og verkalýðshreyfingarinnar og Neytendasamtakanna, og spyrjast fyrir um álit þeirra og reynslu af þessu samstarfi.

[14:15]

Það er auðvitað alveg ljóst að eftir því sem Evrópusambandið stækkar og eftir því sem lengra líður verður erfiðara að beina athygli Evrópusambandsríkjanna að ákvæði EES-samningsins. Hann var barn síns tíma. Hann var jákvæður þegar hann var gerður, en gildistími hans eða endingartími er takmörkunum háður eins og öll önnur mannanna verk og það verður stöðugt erfiðara að fá Evrópusambandsríkin til að veita samningnum nægilega athygli. Það kemur t.d. í ljós hvað varðar hina sameiginlegu fundi EFTA-þingmanna og þingmanna Evrópuþingsins sem halda á reglulega samkvæmt ákvæðum í samningnum, að það verður stöðugt erfiðara að fá þingmenn Evrópuþingsins til að sækja þá sameiginlegu fundi. Áhugi þeirra er á öðrum sviðum en þeim sem snúa að þessum samningi. Það er ljóst að ef eitthvað gerist í hópi þeirra fjögurra ríkja sem standa að EFTA-stoðinni, þó aðeins þrjú þeirra séu aðilar að EES --- það þarf ekki annað en að eitt ríki gangi þar úr skaftinu, þá er hin veika stoð undir EES-samningnum sem er samstarf EFTA-ríkjanna, hrunin. Það er því mjög varhugavert fyrir okkur Íslendinga að treysta á þennan samning til langframa og því er eðlilegt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að fram fari hlutlaus úttekt á öðrum kostum þar sem lýst er bæði kostum þeirra og göllum.

Um öryggis- og varnarmálin vil ég aðeins segja þetta: Hæstv. ríkisstjórn boðaði að á árinu 2000 mundi fara af stað endurskoðun á bókun um framkvæmd varnarsamningsins, sem ég orða svo, sem fellur úr gildi árið 2002 og framlengist ekki af sjálfu sér. Það er misskilningur sem hefur komið fram í umræðum á Alþingi að ef endurskoðunin fari ekki fram þá framlengist umrædd bókun af sjálfu sér. Það gerist ekki. Til þess að hún verði framlengd verður að semja um það og þeir samningar geta hafist árið 2000. Það kemur ekki hins vegar ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra hvaða áherslur hæstv. ríkisstjórn muni leggja við þá endurskoðun. Mun hún fara þess á leit í þeirri endurskoðun að þessi bókun verði framlengd að verulegu eða öllu leyti óbreytt? Eða mun hún, eins og mætti lesa af orðum hæstv. ráðherra, fara þess á leit að framkvæmd varnarsamningsins verði endurskoðuð með það að markmiði að auka þátttöku Íslendinga í því starfi og að Íslendingar taki í meira mæli en verið hefur á sig ýmis þau viðfangsefni sem áður hefur verið sinnt af varnarliðinu? Í ræðu hæstv. ráðherra vantar að hann geri grein fyrir hvaða stefnu ríkisstjórnin ætlar að leggja upp með í þessum viðræðum og ég auglýsi eftir því að hann skýri okkur ítarlega frá því jafnframt því sem ég lýsi eftir þeirri skoðun á öryggishagsmunum Íslendinga sem hæstv. utanrrh. sagði okkur frá í fyrra að hann ætlaði að láta ljúka við, en þá var utanrmn. og fleiri aðilum, m.a. þinginu, gerð grein fyrir bráðabirgðaskýrslu um það efni. Hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir að halda ráðstefnu um framtíð öryggismála á Norður-Atlantshafi og það er gott og blessað. En ég spyr í fyrsta lagi um afstöðu ríkisstjórnarinnar, upplegg ríkisstjórnarinnar í þeim viðræðum um endurskoðun bókunarinnar um framkvæmd varnarsamningsins sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað að hefjist á næsta ári og í öðru lagi um lok þeirrar skýrslu um öryggishagsmuni Íslands sem hæstv. ráðherra sagðist mundi beita sér fyrir að yrði innlegg í þeirri umræðu og mundi verða kynnt fyrir Alþingi áður en þær viðræður yrðu hafnar.

Ég vil fara nokkrum orðum um norrænt samstarf og grannsvæði sem hæstv. utanrrh. minnist á í ræðu sinni þó að augljóst sé þegar menn bera saman ræður utanrrh. á Alþingi um utanríkismál í gegnum árin að stöðugt virðist draga úr mikilvægi þeirrar samvinnu. Ég vil spyrja hann í fyrsta lagi hvernig hann skilgreini hina norrænu vídd sem Evrópusamstarfið á nú að snúa sér að. Þá er ég að tala um landfræðilega skýringu. Í öðru lagi hvort sú landfræðilega skilgreining falli saman við grenndarsvæðin sem Norðurlandaráð leggur sérstaka áherslu á. Og í þriðja lagi, hver afstaða hans er til þeirrar endurskoðunar sem fór fram á norrænni samvinnu árin 1994 og 1995, sem ég og hæstv. utanrrh. tókum m.a. báðir þátt í, og lagði grundvöll að þeim þremur stoðum sem norræn samvinna hvílir nú á, þ.e. hinni hefðbundnu norrænu, Evrópustoðinni og grenndarsvæðunum, en þessar tvær síðari stoðir eru eiginlega sömu pólitísku viðmiðin. Hver er afstaða hæstv. utanrrh. til þess að endurskoða frá grunni þær pólitísku hugmyndir sem lágu á bak við endurskoðunina sem fram fór árin 1994 og 1995 og breyttu inntaki norrænnar samvinnu yfir í það sem hún er núna? Þar var gert ráð fyrir að mjög mikil og náin samvinna yrði milli Norðurlandanna innan Evrópusambandsins, að nánast yrði mynduð norræn blokk og Íslendingar og Norðmenn gætu fengið nokkurs konar bakdyrainngang inn í Evrópusambandið fyrir tilverknað norrænnar samvinnu og þeirrar blokkar sem þannig yrðu mynduð af hinum þremur norrænu ESB-ríkjum. Þetta hefur ekki gerst, þannig að mjög mikilvæg markmið þessa samstarfs hafa ekki náð fram að ganga.

Í lokin vil ég átelja að hæstv. ráðherra skuli ekki minnast á hin alvarlegu tíðindi sem hafa orðið í öryggis- og friðarmálum í heiminum á undanförnum vikum, eða réttara sagt undanförnum dögum, þ.e. þá staðreynd að Bandaríkjaþing neitaði að staðfesta tillögur Bandaríkjaforseta um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þetta eru einhverjir alvarlegustu atburðir sem orðið hafa á friðar- og öryggisþætti í heiminum sem geta dregið langan og mikinn dilk á eftir sér. Mér finnst það miður og spyr hæstv. ráðherra hvernig standi á því að hann minnist ekki á þessa alvarlegu atburði í skýrslu sinni til Alþingis.