Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:30:49 (944)

1999-11-02 14:30:49# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er margt bæði í ræðu hæstv. utanrrh. og eins á sviði utanríkismála sem áhugavert hefði verið að taka hér fyrir og ræða, en ég held að tímans vegna einskorði ég mig fyrst og fremst við einn þátt málsins, þann sem hæstv. ráðherra velur að hafa fyrstan og fremstan í ræðu sinni við mikla hrifningu talsmanns Samfylkingarinnar, þ.e. Evrópumálin.

Ég tel að í þessari ræðu felist, ef ég má leyfa mér að túlka hana og eins og ég skil hana, talsverð tímamót og enn ákveðið skref í ferli eða í þróun í Evrópumálum hvað varðar viðhorf eða framsetningu hæstv. utanrrh. Ég vil vitna í bls. 2 í skýrslunni, með leyfi forseta. Ég tek það fram að skilningur minn á því sem þarna stendur er ekki sá sami og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ég skil það svo að hæstv. ráðherra sé með orðinu aðild, að vísa til aðildar almennt að Evrópusambandinu, enda vandséð að annað samhengi hafi merkingu. (Utanrrh.: Það er réttur skilningur.) Það er rétt. Þá stendur þetta svona og á að skiljast svo, herra forseti:

,,Þó að Ísland hafi aldrei sótt um aðild og engin slík umsókn sé í undirbúningi þá hefur aðild ekki verið hafnað.``

Þetta er afar merkilegt, (Utanrrh.: Er þetta ekki rétt?) mikil speki, mjög mikil vísindi. En ástæðan fyrir að þetta er merkilegt er sú að þetta skuli vera tekið fram, jafnsjálfsagður hlutur og það er að land sem aldrei hefur tekið það á dagskrá, aldrei hefur sótt um aðild, það hefur heldur ekki hafnað henni. En af einhverjum ástæðum velur hæstv. utanrrh. að taka þetta sérstaklega fram og áfram skal haldið:

,,Ákvarðanir samstarfsríkja okkar í EFTA á næstu árum hafa áhrif á þá stöðu. Ég hef því ákveðið að láta gera hlutlausa úttekt`` --- innan gæsalappa --- ,,þar sem farið verður yfir starf Evrópusambandsins lið fyrir lið. Þar er hægt að draga fram hver staða Íslands yrði án samninga, því næst hvernig EES-samningurinn, samstarfssamningur um Schengen og aðrir þeir samningar sem gerðir hafa verið, nýtast okkur og loks hver bein áhrif yrðu ef Ísland væri aðildarríki.``

Síðan vonast hæstv. ráðherra til þess að geta lagt þessa úttekt sína fyrir ríkisstjórnina, eins og þar stendur.

Ég vil í fyrsta lagi í þessu sambandi spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra tryggja að þessi úttekt verði hlutlaus? Ætlar hæstv. ráðherra að verða einn dómari í því hvað skuli teljast hlutlaus eða hlutlæg vinnubrögð? Stendur til að bjóða stjórnarandstöðunni aðild að þessu verki? Ég hef ekki orðið var við það enn þá. Þetta er í tilkynningarstíl frá hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Ég held að hér sé í raun verið að segja við okkur: ,,Það hefur aldrei verið ákveðið að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Því hefur aldrei verð hafnað.`` Í öðru lagi: ,,Það er tímabært að fara í hlutlausa úttekt á kostum og göllum aðildar og hvað fælist í því að Ísland yrði aðildarríki.`` Og ég held að þetta séu tímamót. Ég held að þetta sé enn eitt skrefið á þessari vegferð hæstv. utanrrh. sem legið hefur í áttina að aðild að Evrópusambandinu og hefur verið að þróast á undanförnum missirum.

Herra forseti. Ég tók mér það fyrir hendur að fara í gegnum ræður hæstv. utanrrh. frá því að hann tók við embætti og lesa í hverju einasta tilviki hvernig hann hefur fjallað um tengsl Íslands við Evrópusambandið, frá því að hann flutti sína fyrstu ræðu um þessi efni á Alþingi 19. október 1995. Það er afar athyglisvert, satt best að segja, herra forseti, að fara svona í gegnum þennan feril, þetta rúmlega fjögurra ára tímabil, að viðbættum t.d. ræðum sem hæstv. utanrrh. hefur sem formaður Framsfl. flutt á helstu fundum þess flokks.

19. október 1995 lagði hæstv. utanrrh. á það sérstaka áherslu í ræðu sinni að aðild að Evrópusambandinu væri ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar og rökstuddi nokkuð vel hvers vegna ekki. Með leyfi forseta, fórust hæstv. utanrrh. svo orð:

,,Eðlilegt er því að spyrja hver staða Íslands verður í Evrópu í byrjun 21. aldarinnar. Margir eru þeirrar skoðunar að sækja eigi um aðild að ESB. Það er ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að fara þá leið.``

Síðan ræddi hæstv. ráðherra um það hvað skildi að þá sem vildu aðild og hina sem vildu það ekki og bætti svo við til rökstuðnings sinni afstöðu og ríkisstjórnarinnar:

,,Engin þjóð í Evrópu er tilbúin að afhenda meginauðlind sína undir sameiginleg yfirráð eða samþykkja að stærsta iðngreinin sé rekin undir verndarvæng og styrktarkerfi hins opinbera. Með umsókn við núverandi aðstæður væri gefið til kynna að við gætum sætt okkur við sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins í meginatriðum. Engin vísbending hefur fengist um að Íslendingar gætu losnað undan ákvæðum Rómarsáttmálans í þessum efnum og því er aðildarumsókn órökrétt.``

Þetta sagði hæstv. utanrrh. á Alþingi 19. október 1995.

Þetta er ágætur rökstuðningur svo langt sem hann nær. Að vísu vil ég taka það fram að margt fleira veldur því að aðild að Evrópusambandinu er fráleitur kostur að mínu mati. Þar koma til bæði fullveldis-, sjálfstæðis- og menningarleg sjónarmið og margt fleira. (Gripið fram í: Eins og Davíð segir.)

Þann 23. apríl 1996 fjallaði hæstv. utanrrh. aftur um þessi mál hér á þingi. Þar fórust honum svo orð að grundvallarhagsmunir okkar væru tryggðir og ekki væri tilefni til breytinga á þeim af þeim sökum, en að vísu héldi þróunin áfram og við ættum alltaf að skoða stöðu okkar í Evrópu með opnum huga. Engir tónar voru slegnir þarna í hina áttina.

Þann 31. október 1996 er þriðja ræðan flutt og þar er boðskapurinn:

,,Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar ...``

Og engar gælur eru gerðar við það meir.

Tíminn líður og 17. apríl 1997 er flutt enn ræða. Ekkert er fjallað um aðild, hvorki kosti né galla, rætt um VES og Schengen og talað um stöðu Evrópuríkja utan og innan Evrópusambandsins, eins og það verði sá veruleiki sem við munum þurfa að búa við áfram.

6. nóvember 1997 er ekkert minnst á aðild, ekki ýjað að henni. Rætt er um EMU, stækkun Evrópusambandsins og Schengen, og hvernig málum Íslands og Noregs verði komið fyrir í því sambandi.

31. mars 1998 er ekkert rætt um aðild eða breytingar á tengslum Íslands við Evrópusambandið. Aðallega er fjallað um framkvæmd EES-samningsins.

5. nóvember 1998, 15 dögum áður en hæstv. utanrrh. sem formaður Framsfl. flytur sögulega ræðu sína á flokksþingi, er ekkert komið inn á aðild, mikið rætt um greiðslur í þróunarsjóð og þvermóðsku Spánverja og fjandskap í okkar garð, enda Evrópusambandið ekki vinsælt á Íslandi akkúrat þá dagana vegna krafna Spánverja um að Ísland héldi áfram að greiða í þróunarsjóð EFTA/EES.

En 20. nóvember 1998 flytur síðan hæstv. utanrrh. ræðu sína á flokksþingi Framsfl. og þar er Evrópusambandsaðild heldur betur komin á dagskrá. Þar ríkir tökum-frumkvæði-tónninn og þar er farið að gæla við það í fyrsta sinn að Íslendingar gætu fengið undanþágu frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni eða að Norður-Atlantshafssvæðið gæti orðið sem hafsvæði utan við sameiginlegu fiskveiðistefnuna.

25. febrúar 1999, þ.e. á þessu ári, flytur svo hæstv. utanrrh. síðustu ræðu á undan þessari. Þar er að vísu farið aðeins varlegar í sakirnar en í ræðunni á flokksþinginu. Þar er þó talað um að helsti þröskuldur í vegi aðildar Íslands að Evrópusambandinu sé sameiginlega sjávarútvegsstefnan og það hafi ekki komið fram frá helstu talsmönnum sambandsins að almennar undanþágur frá þeim meginmarkmiðum standi til boða og að lítið vit væri í að leggja fram aðildarumsókn með svo víðtækum undanþáguskilmálum, segir þar. Þarna er farið varlegar í sakirnar, enda orðið stutt í kosningar.

Svo kemur þessi ræða hér, herra forseti, þar sem útgangspunkturinn er í raun og veru sá að skoða mögulega kosti Íslands hvað varðar aðild að Evrópusambandinu. Ég vil leyfa mér að spyrja, herra forseti: Er ekki nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. tali skýrar, tali jafnskýrt á þessa hliðina eins og hæstv. ráðherra gerði þegar hann í sinni fyrstu ræðu sem utanrrh. 1995 tók afdráttarlaust af skarið um að það að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar og það væri óskynsamlegt og þjónaði ekki hagsmunum Íslands? Hvað hefur breyst síðan þau orð féllu, hæstv. utanrrh.? Hver eru tilefnin fyrir þessari úttekt sem nú á að fara að gera?

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, herra forseti, til þess að þessi umræða geti í rauninni þjónað einhverjum skynsamlegum tilgangi, að menn tali skýrt, tali algerlega skýrt, að menn segi það ef hugur þeirra stendur inn í Evrópusambandið eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur gert. Og meira að segja rétta fleiri upp hendur og vilja nú allir komast í klúbbinn, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Það er bara best að Samfylkingin rétti öll upp hönd, sú sem vill fara inn í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Og Framsókn líka, ef sú er orðin niðurstaðan.

Herra forseti. Við þekkjum þennan skollaleik sem hefur í raun verið aðdragandi þess að þeir hafa verið að vinna sínum markmiðum framgang sem vilja fara með sín lönd inn í Evrópusambandið. Hvernig gerðist þetta í tilviki Finnlands og Svíþjóðar og átti að gerast í tilviki Noregs? Það gerðist þannig að menn sögðu nákvæmlega sömu hlutina og hér. Við verðum að skoða þetta. Við verðum að vera með opinn hugann. Þetta var fyrsta skrefið. Næsta skrefið var: Við skulum gera könnun. Við skulum fara í úttekt á þessu. Það var skref númer tvö. Skref númer þrjú: Sækjum um aðild og látum reyna á það hvað okkur bjóðist, bara svona alveg hlutlaust, bara látum reyna á það. Skref númer fjögur: Í miðjum þeim könnunarviðræðum breyta þær um eðli yfir í harðsvíraðar samningaviðræður um aðild og menn koma heim með nestið og segja: ,,Það er bara inn, já.`` Þannig gerðist þetta. Síðan var sett upp rúlletta eða hringekja. Það var vitað að Finnar voru jákvæðastir í garð Evrópusambandsins þannig að atkvæðagreiðslan var látin byrja þar. Síðan komu Svíar og þeir rétt mörðu það og þá var meiningin að Norðmenn þyrðu ekki annað en segja já líka.

Þannig hefur þetta verið rekið áfram. Það hafa verið krata\-flokkarnir í Evrópu sem hafa leikið lykilhlutverk í því að troða sínum þjóðum inn í Evrópusambandið, og oft við mikla andstöðu almennings. Sem betur fer hefur lýðræðið þó unnið sigra eins og í Danmörku 2. júní og eins og í Noregi, þar sem þjóðin hefur í tvígang fellt samninga um aðild að Evrópusambandinu í andstöðu við allt ,,establismentið``, allt heila móverkið. Stærstu stjórnmálaflokkarnir, hagsmunasamtökin og verkalýðhreyfingin hafa allir viljað inn en fólkið hefur sagt nei.

Herra forseti. Ég tel að við eigum ekki hér uppi á Íslandi að reyna að leika slíka skollaleiki. Tölum bara saman á hreinskiptnum og heiðarlegum nótum. Þeir sem telja að Ísland eigi að fara inn í Evrópusambandið geri svo vel og segi það. Hinir sem eru á móti því vita þá hverju þeir standa frammi fyrir og geta fært fram rök fyrir gagnstæðum sjónarmiðum. Það liggur í öllum aðalatriðum allt fyrir sem liggja þarf fyrir um það hvað því er samfara að fara inn í Evrópusambandið. Að því leyti standa orð hæstv. sjútvrh. frá 1995 alveg fyrir sínu enn þá. Það er ekkert sem bendir til þess að í boði séu grundvallarundanþágur frá t.d. sameiginlegu fiskveiðistefnunni og niðurstaðan af endurskoðun hennar voru engin tilefni til þess fyrir okkur Íslendinga að endurmeta okkar stöðu. Það vita menn og þess vegna er ekki um það fjallað. Nú er því einfaldlega sleppt að ræða um þá þröskulda sem eru þó þarna í veginum og málið klætt í þann búning að það sé nauðsynlegt að skoða þetta allt saman svona og fara í voðalega hlutlausa úttekt á þessu, sem hæstv. utanrrh. virðist að vísu sjálfur ætla að ákveða í hvaða skilningi eigi að vera, svona svipað væntanlega og hæstv. utanrrh. ætlar að standa fyrir faglegri ráðstefnu um öryggishagsmuni Íslands, faglegri ráðstefnu. Og hverjir ætla að halda ráðstefnuna? Utanrrh. og NATO, utanrrh. og Norður-Atlantshafsherstjórnin. Þeir ætla að standa fyrir faglegri ráðstefnu, sennilega faglegri og óháðri jafnvel ráðstefnu um stöðu Íslands í öryggislegu tilliti. (Gripið fram í.) Ja, það er hneykslanlegt að efast um að þetta verði faglegt og hlutlaust þegar hæstv. utanrrh. og NATO ,,himself`` ætla að standa fyrir ráðstefnu um þau mál.

Nei, herra forseti, ég get ekki satt að segja gefið mikið fyrir orðagjálfur af þessu tagi. Fyrir Ísland virðist ekkert tilefni vera að séð verður, a.m.k. ekki miðað við stöðu annarra þjóða sem sambærilega eru settar, eins og Norðmanna. Ekki eru þeir með æfingar í gangi eins og hér er verið að fitja upp á af hálfu formanns Framsfl., hæstv. utanrrh. Ég sé heldur engin tilefni vegna breytinga hjá Evrópusambandinu eða breyttri stöðu Íslands að öðru leyti. Er ekki þetta óskaplega góðæri ríkjandi þrátt fyrir að við séum ekki í Evrópsambandinu og þjóðin svona yfir máta hamingjusöm samanber skoðanakannanir? Hvað er þá að? Hvað er þá að, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir? Er þetta þá bara vírusinn? Er þetta smitandi? Er það þannig að menn verða svo mjúkir í hnjáliðunum eftir nokkrar ferðir til Brussel að þetta slær út eins og sjúkdómur með hitasótt? Er það þá rétt hjá fyrrv. formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni, að íslenskir utanríkisráðherrar fái bara þennan vírus eins og sendiliðið í Brussel yfirleitt? Mér finnst ég ævinlega hitta þessa menn gjörbreytta eftir svona hálfs árs veru þar. Hvað í ósköpunum veldur? Sennilega er þetta smitsjúkdómur en ekki það að veitingahúsin í gamla bæjarhlutanum í Brussel séu svona góð, eins og var einu sinni kenning mín um að væri yfirleitt orsökin fyrir þessum sinnaskiptum.