Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:55:21 (949)

1999-11-02 14:55:21# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að hann væri meira gagnrýndur fyrir það að tala of mikið en of lítið. Það má vel vera rétt. En gallinn við það þegar menn tala of mikið er að þá hafa menn of lítinn tíma til að hlusta. Því er eðlilegt að hv. þm. hafi ekki hlustað á svarið við spurningunni sem hann bar sjálfur fram: Hvað hefur breyst á sl. fimm árum? Heimurinn hefur breyst. Hann var þeirrar skoðunar fyrir fimm árum að EES-samningurin væri af hinu vonda. Hv. þm. var á þeirri skoðun að ef hann yrði samþykktur þá mundu Íslendingar afsala sér sjálfstæði sínu.

Nú kemur hann og segir: Ef þetta skref verður stigið þá munu Íslendingar afsala sér sjálfstæði sínu. Voru þeir ekki búnir að því? Var það ekki gert þegar EES-samningurinn var samþykktur á sínum tíma? Eða hefur heimurinn breyst frá þeim tíma þannig að hv. þm. sé þeirrar skoðunar núna, eftir að hafa séð breytingarnar í kringum sig, að sjálfstæðið hafi ekki glatast eins og hann sagðist óttast og menn séu að afsala sér því fyrst núna?

Hins vegar er það mjög athyglisvert, virðulegi forseti, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gæti eins komið hér til þess að tala fyrir hönd Sjálfstfl. eins og að tala fyrir hönd vinstri grænna. Í þessum málum hefur ekkert breyst hjá hvorugum flokknum. Afstaðan er sú sama, heimurinn breytist ekki. Þetta er svona svipað og að hlusta á tvær raddir úr sama búk, Steingrímur J. Sigfússon og Davíð Oddsson, Ísafold og Vörður. Þetta er bara svona.