Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:57:29 (950)

1999-11-02 14:57:29# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti auðvitað svarað eins og sagt að þetta væru eins og tvær síður í sömu bókinni, Sighvatur og Halldór. Það er ákaflega merkilegur samhljómur og kærleikar miklir í málflutningi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar annars vegar, sem kemur hér og strýkur utanrrh. og hjálpar honum í vörninni gagnvart málflutningi þess sem hér talar og hjá hæstv. utanrrh. Það eru bara engin rök í málum af þessu tagi. Mér er alveg nákvæmlega sama hvernig þeir eru á litinn eða hvað þeir heita sem eru mér sammála og taka undir rök mín og hverjir ekki. Þetta er rökstudd afstaða og málstaður sem ég hef. Það skiptir bara bókstaflega engu máli gagnvart þeirri spurningu hver rökin eru og hver mótrökin eru. Hverjir eru efnisþættir þeirra mála sem við erum að ræða um? Auðvitað á að fjalla um það.

,,Heimurinn hefur breyst.`` Þetta er ákaflega algengur frasi þegar menn vilja komast hjá því að rökræða málin. Já, akkúrat, hvað hefur breyst? Hvað hefur breyst svo mikið að Ísland á núna að fara inn í Evrópusambandið? Er það Rómársáttmálinn? Hefur grundvöllur hans breyst? Nei. Er það CFP? Nei, óbreytt. Eru það möguleikar þjóða til að fá undanþágur frá sameiginlegri löggjöf Evrópusambandsins, Rómarsáttmálanum og réttinum? Nei, öfugt. Ef eitthvað er hafa aðildarviðræður og samningar síðustu ríkjanna sem fóru inn sýnt fram á að það er erfiðara en áður að fá undanþágur. Danir halda undanþágum sem hvorki Svíar né Finnar fengu í samningum. Evrópusambandið mun verða enn þá harðara þegar taka á inn ný ríki, að láta þau ekki hrófla við grundvellinum sem allt heila stoðverkið byggir nú á. Ég tel að það sem hafi breyst sé frekar í hina áttina, sé ófýsilegra en áður fyrir okkur Íslendinga að hugsa um aðild að þessu sambandi ef eitthvað er.

Kjarnaatriðin í málflutningi þeirra sem telja að við Íslendingar eigum ekki erindi þarna inn er sérstaða okkar, sérstakir efnahagshagsmunir okkar. Það eru yfirráð yfir fiskveiðilögsögunni og aðrir slíkir þættir. Það er a.m.k. alveg ljóst að það er ekki hægt að benda á neitt sem hefur breyst hvað varðar þessa grundvallarþætti til að gefa okkur tilefni til að endurmeta yfirlýsta stefnu allra nema Alþfl. að við ættum ekki erindi inn í þetta samband.