Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:59:40 (951)

1999-11-02 14:59:40# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ekkert hefur breyst, er það þá skoðun hv. þm. að Íslendingar hafi afsalað sér sjálfstæði sínu þegar þeir samþykktu EES-samninginn og hafi verið ósjálfstæðir síðan? Hvernig er hægt að afsala sjálstæði einnar þjóðar oft og mörgum sinnum, ef hún er einu sinni búin að því, eins og hv. þm. sagði að hún mundi gera við samþykktina á EES-samningnum á sínum tíma? Hvernig getur hann enn verið þeirrar skoðunar að þá hafi sjálfstæðinu verið afsalað eða hefur hann breytt um skoðun?

[15:00]

Hv. þm. sagði að menn yrðu að fylgja meiri hlutanum. Alveg rétt og allar þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið um þessi mál á meðal almennings á Íslandi sýna að meiri hluti almennings er opinn fyrir því að skoða aðild að Evrópusambandinu. Hann segir ekki frekar en ég eða aðrir í Samfylkingunni að við eigum að fara þangað inn, heldur að við eigum að taka málið á dagskrá og ræða það. Meiri hluti almennings hefur sagt, í öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið um þetta mál, að hann sé fylgjandi því að þannig sé haldið á málum. Hins vegar hefur meiri hluti stjórnmálamanna á Alþingi verið annarrar skoðunar. En ég vænti þess að hv. þm. sé það mikill lýðræðissinni að hann sé reiðubúinn til þess að skjóta málinu til þjóðarinnar þannig að hún geti látið vilja sinn í ljós.

En ég ítreka að það er eins og að lesa Ísafold og Vörð að hlusta á málflutning hv. þm. og formanns Sjálfstfl. Þar gengur ekki hnífurinn á milli í þessu máli frekar en fleirum. Það er eins og ein rödd sé að tala, að upp úr einu blaði sé lesið og skiptir ekki máli hvort það er Ísafold eða Vörður sem tali, málflutningurinn er sá sami.