Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:04:00 (953)

1999-11-02 15:04:00# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hér hefur orðið athyglisverð umræða um ræðu utanrrh. um utanríkismál. Ég verð að segja eins og er að þessar ræður byggjast að miklu leyti á afar sérkennilegum stjórnmálaskýringum, eins konar Kremlarlógíu, á þessari ræðu sem er til þess að gera flutt í fullkomnu jafnvægi. Í henni voru ekki öll þau miklu tíðindi sem menn vilja sjá í henni. Það er athyglisvert að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Steingrímur J. Sigfússon sjá sömu hlutina í þessari ræðu, túlka hlutina eins, sem eindregna viljayfirlýsingu Framsfl. um að þeir vilji ganga í Evrópusambandið ellegar skoða málin í því ljósi að það verði gert síðar.

Þegar ræðan er lesin af nákvæmni er enga slíka hluti að finna í henni. Ráðherrann hefur sjálfur lýst því hér yfir að það standi ekki til að við sækjum um aðild. Ástæðan fyrir því að hv. þm. gera svo mikið úr þessu og vilja lesa svo margt úr ræðunni er einföld, hygg ég. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er mikill andstæðingur Evrópusambandsins og vill nýta sér þá pólitísku stöðu sem það hefur veitt honum að vera andstæðingur Evrópusambandsins. Hann metur það nú sennilega rétt að hann hafi hirt í síðustu kosningum talsvert af atkvæðum af Framsfl. út á þessa afstöðu sína þar sem kjósendur kunni að hafa verið í vafa um afstöðu Framsfl.

Sighvatur Björgvinsson fagnar hins vegar meintum áhuga Framsfl. á inngöngu í ESB vegna þess að í samstarfi þeirra flokka sem standa að Samfylkingunni tókst Alþfl. ekki einu sinni að halda því til haga, því gamla baráttumáli sínu, að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið. Þannig að litlu verður Vöggur feginn hvar sem hann finnur það. Þess vegna er leitað hér á örvæntingarfullan hátt að einhverju sem hugsanlega megi túlka sem vilja hæstv. utanrrh. til þess að ganga í Evrópusambandið. Þannig eru nú þessar umræður og stjórnmálaskýringar til komnar, þessi Kremlarlógía sem menn stunda af kappi.

Ég verð að segja eins og er að ég tek heils hugar undir það sem kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh. Auðvitað eigum við að fylgjast mjög náið með því sem er að gerast í Evrópu. Það er mikið að gerast í Evrópu. Evrópusambandið er lifandi stofnun og allt önnur en hún var t.d. á sjöunda áratugnum þegar um var að ræða samstarf sjálfstæðra ríkja. Nú þróast þetta samband í átt til ríkjasamsteypu sem hefur sameiginlegan gjaldmiðil og hugsanlega sameiginlega skattastefnu og sífellt meiri samþjöppun valds í kringum stofnanir sambandsins.

Það er alveg ljóst að jafnvel nú á þessum dögum er ýmislegt að gerast í þessum málum. Nýútkomin er skýrsla á vegum framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, Romano Prodi, sem á að vera framlag hans til umræðunnar um hvernig Evrópusambandið eigi að þróast. Í þeirri skýrslu kemur mjög skýrt fram að menn hafa alvarlegar áhyggjur af því innan Evrópusambandsins hvernig sambandið starfar, hvernig stofnanir þess virka, hvernig lýðræðið virkar í Evrópusambandinu. Menn líta svo á sem Evrópusambandið eigi langa vegferð fyrir höndum áður en hægt er að segja að það njóti trausts almennings og geti talist stofnun þar sem lýðræðið og valdahlutföllin milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins eru í jafnvægi.

Meðal þess sem fram hefur komið í undirbúningi ríkjaráðstefnunnar sem nú er fram undan er að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins starfar alls ekki með viðunandi hætti. Ákvarðanataka er erfið, umræður innan Evrópusambandsins eru endalausar og það er lýðræðislegur hallarerkstur á innbyrðis tengslum stofnana ESB. Þetta eru þeirra eigin orð um eigin stofnanir þannig að þarna eru mikil vandamál komin upp og forusta ESB líður fyrir margvíslega veikleika sem eru innbyggðir í stofnunum Evrópusambandsins.

Það er rétt að Evrópuþingið hefur öðlast aukin völd. Engu að síður hefur það þó mjög takmarkað vald til að hafa áhrif á lagasetningu sem á uppruna sinn í framkvæmdarvaldinu. Það er líka athyglisvert að Evrópuþingið hefur mjög lítil áhrif á almenning. Það er lítill áhugi og lítill skilningur meðal almennings í Evrópusambandslöndunum á Evrópusambandinu og stofnunum þess, þar á meðal er mjög lítill áhugi á Evrópuþinginu og kosningaþátttaka til Evrópuþingsins er mjög lítil. Af þessum sökum hefur verið komið upp sérstökum hugmyndabanka á vegum framkvæmdastjórans og sett saman skýrsla sem þeir Richard von Weizsäcker, Jean-Luc Deheane og lord Simon unnu fyrir Romano Prodi. Þetta eru þekktir menn, alla vega tveir þeirra, úr stjórnmálalífinu. Þær hugmyndir ganga lengra en hingað til hefur verið talað um í dýpkun samstarfsins og uppstokkun stofnanakerfisins. Það eru nýjar hugmyndir um meiri áfanga og stærri sem menn vilja ná þar.

Ástæðan fyrir því að gefin var út mikil tilkynning um að taka ætti upp viðræður við fleiri aðildarríki var einfaldlega sú að framkvæmdastjórnin vissi fyrir fram að þau tíðindi sem er að finna í skýrslunni mundu koma sem köld gusa á þau ríki sem hafa beðið eftir því að ná samstarfi við Evrópusambandið. Af inntaki þessarar skýrslu er ljóst að málin eru metin þannig að ekki sé raunhæft að þau ríki sem nú er verið að tala við gangi í Evrópusambandið á næstu árum, það er langt í frá. Þarna er verið að ræða um ríki sem eiga mjög langa leið fyrir höndum.

Engu að síður er talað um miklar breytingar innan Evrópusambandsins. Þar eru áhugaverðar breytingar sem við þurfum að fylgjast mjög rækilega með vegna þess að þær koma til með að hafa áhrif á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Það er verið að tala um þrjú meginatriði. Það sem fjallað verður um á ríkjaráðstefnunni er að meginreglan í samstarfi ESB-ríkjanna verður meirihlutaákvörðun. Það er ljóst að forsetavaldið verður styrkt mjög og einnig er ljóst að ný ríki sem ganga í sambandið munu fyrst um sinn öll fá fulltrúa sinn í framkvæmdastjórninni. Þetta eru hugmyndir úr þessum hugmyndabanka.

Í þessum tillögum er óbeinan hátt að ýtt undir að skattastefna Evrópusambandsins verði samræmd. Það er ekki sagt beinum orðum en það er alveg klárt að meirihlutaákvarðanirnar og mikilvægi þeirra leiða til þess að samræming verði í skattamálum. Þetta er raunar hafið þannig að meiri hluti Evrópusambandsþjóðanna lítur svo á að leggja beri á samræmdan fjármagnstekjuskatt. Ástæðan er sú að fram hafa komið ásakanir um að ákveðnar þjóðir hafi öðlast samkeppnisforskot í gegnum fjármagnstekjuskattinn. Þær tvær þjóðir sem helst hafa verið sakaðar um þetta hafa stöðvað allar umræður um samræmdan fjármagnstekjuskatt, en það eru Bretar og Lúxemborgarar. Þó er ekki spurning um að sú staðreynd að Evrópusambandið hefur ekki samræmdan skatt á fjármagnstekjur hefur leitt til þess að skattbyrði á vinnuafl í Evrópusambandinu hefur þyngst og leitt til þess að atvinnuleysi hefur stórvaxið á vissum svæðum Evrópusambandsins. Á öðrum svæðum í Evrópusambandinu tekst mönnum illa að glíma við þessa miklu vofu sem atvinnuleysið er.

Þess vegna hygg ég að á næstunni verði settar fram hugmyndir með auknum þunga um sameiginlega skattastefnu. Það er mjög mikilvægt skref ef það nær fram að ganga. Það er ljóst að sameiginlegi gjaldmiðillinn og, ef við það bætist, sameiginleg skattastefna munu verða afdrifarík skref í þá átt að búa til sambandsríki Evrópu.

[15:15]

Með þessu þurfum við að sjálfsögðu að fylgjast mjög rækilega og ég er alveg sammála því að það er mikilvægt, eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðherra, að gera úttekt á þessum málum. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að þótt utanrrn. muni leggja sig fram um það, eins og það mun gera, að gera slíka skýrslu hlutlausa, þá er mjög erfitt að meta hlutlaust það sem kannski mestu máli skiptir, þ.e. hvernig völd verða til, hvernig áhrif verða til í ráðherraráðinu og á hvaða grundvelli mál ná þar fram eða ná þar ekki fram.

Ég vil minna á að það kom mjög skýrt í ljós, við fengum kannski smjörþefinn af því, hvernig mál eru unnin innan Evrópusambandsins, hjá valdastofnunum þess, þegar við áttum í vandræðum með þróunarsjóðinn svokallaða. Það var sama við hvaða ráðamenn Evrópusambandsins maður ræddi. Allir sögðu: ,,Þið hafið rétt fyrir ykkur. Það er engin ástæða fyrir ykkur að borga í þennan sjóð. Þetta er ranglátt. Þetta nær engri átt. En þið skuluð borga. Þið verðið að borga, þó að það sé ekkert vit í því.`` Þannig gerast kaupin á eyrinni. Og í ráðherraráðinu er iðulega verið að taka mál í gíslingu. Þessi valdastofnun virkar ekki eingöngu eftir bókstafnum eins og hann er. Hún virkar líka að mjög miklu leyti sem vettvangur heiftarlegra átaka um eigin hagsmuni eins og kemur mjög skýrt í ljós við átök Breta og Frakka um viðskiptamál nú um stundir. En ég er sammála því að okkur ber að fylgjast mjög rækilega með þessu máli og öll upplýsingagjöf um málið er mjög mikils virði.

Það er einnig mikilvægt sem kemur fram í ræðu ráðherrans um að upp hafa verið teknar viðræður um bókun 9, en þar hafa verið settar fram kröfur um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Þegar litið er yfir þróun viðskipta Íslands og Evrópusambandsins eftir að samningurinn komst á um Evrópska efnahagssvæðið, þá hefur sá samningur vissulega ýtt undir viðskipti okkar við Evrópusambandið og mjög verulega. En viðskiptahagsmunir Evrópusambandsins gagnvart okkur hafa aukist hraðar en okkar hagsmunir. Það er því ljóst að það hallar á okkur í þessum viðskiptum og það á eflaust rætur að rekja til þess að enn eru eftir hömlur að því er varðar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Það er mjög mikilvægt að þessu sé haldið til haga.

Í svo takmörkuðum umræðutíma sem hér gildir er ekki auðvelt að koma að öllum sjónarmiðum. Það verður kannski hægt að gera það síðar. En ég vil að lokum geta þess að þeir kaflar í ræðu hæstv. utanrrh. sem fjalla um öryggis- og varnarmál, um Vestur-Evrópusambandið og tengsl þess við ESB, ásamt kaflanum um umhverfismál og orkumál og Alþjóðaviðskiptastofnunina, eru kaflar sem ég hef hug á að fjalla um nánar við annað tækifæri.