Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:22:56 (957)

1999-11-02 15:22:56# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég get varla borið ábyrgð á því þótt hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé í lélegum tengslum við þá þingmenn sem eru vel upplýstir um ástæðurnar fyrir því að slíkar yfirlýsingar sem við erum að tala um voru gefnar. Ég stend sjálfur í persónulegum tengslum við fjöldamarga þingmenn sem sitja á Evrópuþinginu. Ég hef að sjálfsögðu tengsl við þessa menn og það þarf ekki mikil tengsl til að gera sér grein fyrir því að hér var um yfirlýsingu að ræða sem átti að koma til móts við þessar þjóðir. Og ef hv. þm. er þvílíkt barn (Gripið fram í.) að hann ímyndar sér að Búlgaría og Rúmenía eigi möguleika á því að komast með einhverri hraðferð inn í Evrópusambandið þó að umræður hafi verið teknar upp við þessar þjóðir, þá verð ég að segja að hann er bjartsýnni en ég þori að vera.

Ég vil taka það sérstaklega fram fyrst hv. þm. heldur að sá sem hér stendur sé í einhverjum persónulegum æfingum í þessum málum þá þarf ekki annað en að lesa það sem sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, John Maddison, segir um þessi mál. Hann segir nákvæmlega um þau að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að taka upp viðræður við þessi ríki breyti bókstaflega engu um hag Íslands þannig að allar fullyrðingar um hið gagnstæða eru úr lausu lofti gripnar. Það vakir ekki fyrir Evrópusambandinu, og fulltrúi þeirra tekur það skýrt fram, að það breytist ekki neitt í stöðu Íslands við þetta. Staða Íslands er jafngóð eða jafnslæm eða eftir því sem menn vilja hafa það fyrir og eftir.