Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:55:32 (964)

1999-11-02 15:55:32# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. 2. þm. Norðurl. e., Valgerður Sverrisdóttir, sagði um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þá segir í ræðu minni: ,,Róðurinn hefur reynst þungur í þeim tilvikum þar sem ástæða þykir til að breyta ákvörðunum ESB eða laga þær sérstaklega að íslenskum aðstæðum áður en þær eru felldar inn í EES-samninginn.``

Staðan er einfaldlega sú að við höfum tiltölulega litla aðkomu að pólitískum ákvörðunum innan Evrópusambandsins því pólitíska samráðið er minna en var í upphafi. Það er einfaldlega vegna þess að þegar við gengum inn í þennan samning þá voru 30 milljónir manna í okkar stoð en í dag eru 4 milljónir manna og áhrif okkar eru minni á pólitíska sviðinu en áður var. Þetta ber að viðurkenna. Við höfum reynt að bæta þetta upp, m.a. með samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar o.s.frv.

Hins vegar hefur okkur tekist í framkvæmd samningsins að hafa allmikil áhrif í nefndum en við eigum aðild að yfir 300 nefndum og hefur gengið vel að komast að því starfi. EFTA sem stofnun rekur þetta samstarf að verulegu leyti en þar vinna, eftir því sem ég best man, milli 60 og 70 manns, og einnig sendiráð okkar í Brussel. Þessi starfsemi skiptir afar miklu máli til að hafa áhrif í upphafi og að undanförnu hefur verið rætt um að auka starf Alþingis á því sviði. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi fylgist betur með málum á mótunarstigi því að það er mjög erfitt að hafa áhrif á slík mál þegar þau eru komin á lokastig.