Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:57:57 (965)

1999-11-02 15:57:57# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur rétt áðan vil ég segja þetta: Við eigum eftir að sjá hvernig Ísland kemst út úr ofurkröfum sínum varðandi aðildina að Kyoto-samkomulaginu. Við verðum að taka þátt í þessum samningi, annað væri Íslandi til vansa. Og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi mál þróast á ríkjaráðstefnunni og þeim ráðstefnum sem við eigum eftir að taka þátt í um þetta stóra mál.

,,Enginn gætir hagsmuna okkar nema við sjálf.`` Þetta segir hæstv. utanrrh. í tengslum við aukna þátttöku okkar í alþjóðsamfélaginu og að við eigum ekki kost á að sitja þar hjá. Enda fjallaði ræða utanrrh. fyrst og fremst um Ísland í samfélagi þjóðanna og að við höfum þar hlutverki að gegna. Í lokaorðum hans fólst áhersla á framsækna utanríkisstefnu og að ekki megi láta þröngsýni og hræðslu við þátttöku í samstarfi ríkja ráða gjörðum okkar. Ekki einangrast, vera í þjóðbraut. Ég er innilega sammála þeirri hugsun og þessum orðum. Það er hins vegar ekki alveg ljóst hvort þau orð mundu virka eins í framkvæmd séð frá mínum sjónarhóli og hæstv. utanrrh.

[16:00]

Hins vegar verð ég að segja að það var mjög athyglisvert að hlusta á þá pólitísku félaga, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og Tómas Inga Olrich hamast við að þýða ræðu hæstv. utanrrh. Mér sýnist ræðan alveg skýr, hann talar tæpitungulaust. Það er mjög ánægjulegt að fram skuli koma að í ræðunni felist vilji þeirra beggja, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh.

Virðulegi forseti. EES-samningurinn er einhver mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gerst aðilar að, ekki aðeins viðskiptahluti hans, heldur færði hann launþegum félagsleg réttindi sem skorti á hérlendis, sem við hefðum fyrir löngu átt að innleiða í okkar lög og kjarasamninga sjálf en höfðum ekki gert. Mikið verk er enn óunnið sem fylgja þarf eftir að skili sér inn í réttindi launafólks og við eigum að tryggja að það gerist og gerist sem fyrst. Varðandi viðskiptasamninginn er óumdeilt að EES-samningurinn átti gífurlegan þátt í þeim hagvexti sem varð á síðasta kjörtímabili. Það var fróðlegt og ánægjulegt þegar iðnn. var á fundi með Samtökum iðnaðarins á þessum morgni að það sjónarmið kom alveg skýrt fram að trúlega hefði EES-samningurinn haft miklu meiri jákvæð áhrif inn í íslenskt atvinnulíf en menn væntu fyrir fram.

Sighvatur Björgvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði úttekt á EES-samningnum og starfi Evrópusambandsins að umtalsefni í ræðu sinni og ég ætla ekki að bæta miklu þar við. Ég ætla þó að nefna að ýmsir hafa talið á liðnum vikum og mánuðum að það sé mjög líklegt að á næstu tveimur til þremur árum geti það gerst að Sviss leiti eftir aðild að Evrópusambandinu en vissulega geta nýafstaðnar kosningar hafa breytt því sjónarmiði, ég tek það fram, og þá mundi Noregur láta reyna á aðildarumsókn í hið þriðja sinn. Ég ætla ekki að gera þessa skoðun að minni en ýmsir, sem hafa verið að takast á við alþjóðamálin og gera þeim skil, hafa reifað þetta sjónarmið. Þá sýnist mér að miðað við kostnaðinn af EES-samningnum, sem Sviss og Noregur bera að stærstum hluta og Ísland að mjög litlum hluta, mundi það gjörbreyta stöðu okkar gagnvart EES-samningnum. Ég spyr hæstv. utanrrh. hvort það sé rétt að við mundum ekki geta staðið kostnaðarlega undir EES-aðildinni, jafnvel þó EES-samningurinn fengi að standa gagnvart okkur ef þessi lönd mundu flytja sig yfir í Evrópusambandið?

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að endurtaka orð hæstv. utanrrh. sem urðu deiluefni fyrr á fundinum í ræðu hans í upphafi umræðunnar:

,,Ég hef því ákveðið að láta gera hlutlausa úttekt þar sem farið verður yfir starf Evrópusambandsins lið fyrir lið. Þar er hægt að draga fram hver staða Íslands yrði án samninga, því næst hvernig EES-samningurinn, samstarfssamningur um Schengen og aðrir þeir samningar, sem gerðir hafa verið, nýtast okkur og loks hver bein áhrif yrðu ef Ísland væri aðildarríki.``

Ég geng út frá því, virðulegi forseti, að í þessari úttekt mundi líka felast hver yrði staða Íslands gagnvart EES-samningnum ef Sviss og Noregur fara að skoða það að gerast aðilar að Evrópusambandinu en Ísland ekki.

Ég er sammála því hvernig utanrrh. setur þetta fram og styð þessa hlutlausu úttekt. Við eigum að ræða málin opið, það höfum við alltaf sagt. Enn þá hefur enginn heyrt mig segja það úr þessum ræðustól eða annars staðar að Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu en ég hef mörgum sinnum sagt að við eigum að skoða alla kosti sem eru í stöðunni og síðan að taka ákvörðun. Þess vegna er hvorki kreppa né örvænting í ákvörðunum Samfylkingarinnar. Um þá stefnumörkun, sem þar er sett fram, er full sátt og þegar þessi mál hafa verið skoðuð, úttektir liggja fyrir og menn vita hvað felst í stöðunni, munum við á sama hátt og utanrrh., og væntanlega forsrh., taka afstöðu. Svo einfalt og skýrt er það.

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert þó utanrrh. hafi stiklað á stóru í ræðu sinni í dag þá nefnir hann eitt mál sem mér fannst lítið og mörgum finnst kannski fallegt en það er hugsanleg tollalækkun á íslenskum hestum gagnvart Evrópusambandinu en að árangur fari eftir hvaða gagntilboð tollalækkana fyrir afurðir frá Evrópusambandinu yrðu varðandi íslenskan markað. Það er e.t.v. vegna þess að ég hef alltaf haft efasemdir um með hvaða hætti við höfum verið að selja íslenska hestinn til útlanda að ég staldra við þennan litla einfalda þátt í ræðu ráðherrans og spyr hann þess vegna hvaða vörur eru það sem við mundum hugsanlega vera tilbúin að lækka tolla á eða fella niður tolla á til þess að auðvelda þessi viðskipti.

Utanríkismál. Norðurlöndin eru nærsvæði okkar og ég er sammála hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um að það samstarf er mikilvægasta erlenda samstarfið fyrir okkur á Íslandi. Mér hefur fundist að norræna samstarfið innbyrðis hafi fengið minna vægi eftir skipulagsbreytinguna í Norðurlandaráði þar sem norræna samstarfið er aðeins einn jafnrétthár stólpi af þremur, af norðurnefndinni, nærsvæðanefndinni og Evrópunefndinni, að þessar stoðir hafa gert það að verkum að Norðurlandasamstarfið sjálft hafi á vissan hátt veikst. Mér finnst mikilvægt að þeir sem halda um þessi mál verði vel á verði og fylgi því eftir í því starfi þar sem við höfum forustu að hvergi sé gefið eftir eða vikið undan í þeim mikilvæga þætti sem Norðurlandasamstarfið er. Mér finnst það líka ákveðið áhyggjuefni að Norðurskautssamstarfið er ekki lengur tengt Norðurlandaráði, það teygir sig til stóru þjóðanna í austri og vestri og er á margan hátt nokkuð sjálfstætt. Við eigum einn fulltrúa í þingmannasamstarfi þess en það er á engan hátt tengt Íslandsdeild alþjóðasviðs eða einhverjum öðrum þætti þannig að erfitt er fyrir okkur að vita hvað er að gerast í samstarfi þjóðanna á norðurhveli. Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. utanrrh. fjalla meira um samstarfið í norðri því að þar eigum við mikilvægra hagsmuna að gæta, ekki síst á sviði umhverfis- og mengunarmála.

Í umfjöllun um starf okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna nefndi ráðherra jafnframt að Ísland byði sig fram í nefnd um sjálfbæra þróun. Hvað þýðir þetta? Fær Ísland aðild ef það býður sig fram, ganga sætin í þeirri nefnd eitthvað á milli landa eftir ákveðnu kerfi eða göngum við til þess að það sé kosið á milli aðildarlandanna og eigum við einhverja möguleika þarna? Ég spyr ráðherrann líka að því hvort Ísland eigi núna sæti í mannréttindaráðinu eins og áformað var og talað var um hér síðast þegar við ræddum saman. Ég held að það hafi verið í febrúar.

Um leið og ég færi mig yfir í að ræða þátt okkar í því stóra samhengi sem Sameinuðu þjóðirnar eru langar mig líka, virðulegi forseti, að nefna flóttamannasamninginn frá 1951, sem við erum aðilar að. Það skortir enn á í lögum hjá okkur um réttarstöðu flóttamanna, ég hef spurt um það held ég í hverri einustu utanríkisumræðu, fyrir utan að vera með hefðbundnar fyrirspurnir til dómsmrh. a.m.k. í þrjú ár, við eigum að tryggja ráðgjöf, túlk og réttaraðstoð og að bann við brottvísun og endursendingu verði í takt við flóttamannasamninginn. Það er dálítið alvarlegt, virðulegi forseti, að við höfum nýlega haft utandagsrkárumræðu um Kúrda, sem ekki naut þeirra sjálfsögðu réttinda sem við höfum undirgengist samkvæmt samningi heldur var honum líka stungið í fangelsi. Það er mál til komið að Alþingi breyti lögum í samræmi við slíka alþjóðasamninga.

Virðulegi forseti. Það var mjög umdeilt að hæstv. utanrrh. fór til Úkraínu, ég ætla ekki að gera það að umtalsefni, heldur hitt að þar talaði hann sem forustumaður í Evrópuráðinu gegn dauðarefsingum. Nákvæmlega það var mjög mikilvægt fyrir alþjóðasamfélagið. Hann var að fylgja eftir kröfum Evrópuráðsins um að lönd Evrópu virtu sáttmála. Nú er það svo að Ísland er meðflutningsaðili að tillögu sem liggur fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna varðandi dauðarefsingar. Ekki beinlínis um að afnema þær, svo sterkt þora menn ekki að fara í tillöguflutning á hæstv. þingi Sameinuðu þjóðanna, heldur varðar tillagan dauðarefsingar. Hún er um að öll ríki breyti lögum sínum gegn því að börn séu tekin af lífi. Þetta telja þeir sem vinna með mannréttindamál að sé mikilvægt skref í átt að afnámi dauðarefsinga. Næstum öll ríki Evrópu hafa afnumið dauðarefsingar og Ísland er eitt fárra ríkja sem er með það ákvæði í stjórnarskrá sinni. Þess vegna eigum við alls staðar að láta í okkur heyra um þessi mál. Ég vona að Íslendingar standi saman um þessi mál, hvort sem þeir flokkast sem hægra fólk eða vinstra fólk. Þetta segi ég, virðulegi forseti, að gefnu tilefni. Það að þing Sameinuðu þjóðanna samþykki tillögu um að öll ríki setji hjá sér lög gegn því að börn séu tekin af lífi er auðvitað í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er áfangi í því að ríki vinni að afnámi dauðarefsinga. Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustól að við erum frekar feimin að gagnrýna stóra ríkið í vestri en á þessu ári eru yfir 80 manns tekin af lífi í Bandaríkjunum.

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. utanrrh. til að flýta því að við staðfestum alþjóðasakadómstólinn, Ísland var með fyrstu ríkjum til að skrifa undir að setja hann á laggir. Ég spyr hvað líði framkvæmd staðfestingar. Að lokum ætla ég að lýsa því yfir að Ísland er vissulega enn þá mikill eftirbátur nágrannaríkja í framlögum til þróunarmála en það er jákvætt að það skuli vera aukning í framlögum í þessum þætti, bæði á fjárlögum næsta árs og þessa. Það styð ég. Við verðum að taka okkur verulega á í þróunar- og mannréttindamálum.