Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:15:47 (967)

1999-11-02 16:15:47# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Einhvern tíma heyrði ég að hlutur í kostnaði EES-samningsins skiptist þannig að bæði Noregur og Sviss væru með yfir 45% hvort af kostnaðinum, litlu ríkin með mjög lítið og við með 2% eða eitthvað slíkt. Stundum talar fólk eins og allt geti haldist óbreytt en hlutirnir eru ekki alltaf eins og við viljum hafa þá. Breytingar annars staðar geta gjörbreytt umhverfi okkar. Það var það sem ég var að draga fram með spurningu minni til ráðherrans. Á sama tíma og hann leggur til sína hlutlausu úttekt og horfir til framtíðar þá geta fyrr en varir orðið breytingar hjá öðrum þjóðum sem kippa fótunum undan því sem menn telja e.t.v. henta okkur. Ég lít svo á að svar hæstv. ráðherra hafi staðfest það.

Ég kom með nokkuð margar spurningar í innleggi mínu enda lít ég svo á að umræða um utanríkismál, eins og við höfum vanið okkur á í þessum sal, eigi að vera skoðanaskipti. Það á ekki að vera þannig að maður einskorði sig við fáar spurningar eða lítið mál sem viðkomandi ráðherra geti svarað í stuttu andsvari. Ég lagði fram nokkuð margar spurningar sem ég vona að ráðherrann taki með í lokaræðu sína. Aðeins þannig fáum við skoðanaskipti um það sem efst er á baugi, um hvert við ætlum að stefna. Þess vegna mun ég leggja áherslu á að vera þessa umræðu til enda og fylgjast með hvernig hæstv. ráðherra kýs að nýta lokaumfjöllun sína í þessum málum.