Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:20:10 (969)

1999-11-02 16:20:10# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður mjög fróðlegt að fá niðurstöðu þessarar nefndar og málefnaþátt þeirra. Ég var hins vegar að tala um skipulagsmál varðandi Norðurlandasamstarfið. Það verður gerð úttekt á því á næstu vikum. Ástæðan fyrir því að ég hef haft áhyggjur af því skipulagi er að mér finnst að innra samstarf Norðurlandanna hafi að einhverju leyti fengið minna vægi í þessu nýja skipulagi en áður fyrr.

Ég á dálítið erfitt með að sjá hvernig norðurskautssamstarfið getur tengst Norðurlandaráði eftir að það var aftengt í fyrra vegna þess að slíkt samstarf verður þá fyrst virkt að það er tekið formlega fyrir á einhverjum öðrum vettvangi. Úr því að það er ekki tekið formlega fyrir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs eða á þingum Norðurlandaráðs er mikilvægt að við eigum þess kost á Alþingi að taka það fyrir með einhverjum hætti. Eins og ég benti á fellur það ekki undir Íslandsdeild Norðurlandaráðs, umræðu um skýrslu, þannig að mér finnst mikilvægt að skoða hvernig við getum fengið umfjöllun um norðurskautssamstarfið.

Að öðru leyti vænti ég þess að ráðherrann komi inn á fleiri þætti úr ræðu minni í lokaræðu sinni. Mér finnst það skipta mjög miklu máli og vil taka það fram að hann gerir vel í að koma í andsvör að því marki sem það dugir.