Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:22:54 (971)

1999-11-02 16:22:54# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hefur ekki tekið mjög vel eftir orðum mínum. Ég var ekki að lýsa þekkingu minni á málefnum í Sviss heldur var ég að nefna að ýmsir sem hefðu fjallað um framtíð Evrópumála teldu mjög líklegt að innan tveggja eða þriggja ára mundi Sviss leita eftir inngöngu í Evrópusambandið. Jafnframt sagði ég að ef Sviss gerði það væri líklegt að Noregur mundi reyna í þriðja skiptið. Þetta liggur í spilunum að mati þeirra sem hafa verið að skoða Evrópumálin.

Ég nefndi það hins vegar sjálf að nú mætti vel vera að þessar vangaveltur hefðu breyst eftir kosningarnar í Sviss. Við vitum að það urðu mjög óvænt úrslit í kosningunum í Sviss og margir tengdu niðurstöður þeirra kosninga við hugsanlega afstöðu til Evrópumálanna. Þannig lagði ég málið upp. Ég get því miður ekki sagt hvað er að gerast í Sviss. Ég hef ekki þekkingu á þeim málum.