Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:24:12 (972)

1999-11-02 16:24:12# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það sem er að gerast í Sviss, eftir því sem mér er kunnugt, er að Sviss hefur lagt inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og það fyrir löngu. Sú umsókn var sett í frysti. Hún hefur ekki verið dregin til baka en var sett í frysti þegar Sviss hafnaði aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er nákvæmlega ekkert að gerast í þessari aðildarumsókn hjá Svisslendingum í dag.

Svisslendingar hafa gert sjö tvíhliða samninga við Evrópusambandið. Þeir hafa bæði undirritað og fullgilt þessa samninga en vegna þeirra ákvæða sem gilda í svissneskum lögum um þjóðaratkvæði --- það er hægt að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu með hlutfallslega litlum stuðningi --- er gert ráð fyrir því að þessir sjö samningar muni fara í þjóðaratkvæði í sumar. Ef þessir sjö samningar, sem eru tvíhliða samningar, fá samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er talið fullvíst að þeir muni ná, þá færir það Sviss ekki eins nærri Evrópusambandinu og samningurinn um Evrópska efnahagssambandið hefur fært okkur. Þetta er það sem er að gerast í Sviss.

Ég er sammála hv. þm. um að árangur Christoph Blochers í kosningunum kemur til með að draga enn frekar úr því að nokkuð verði gert með þessa aðildarumsókn sem lengi hefur lengið í frysti.