Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:26:44 (974)

1999-11-02 16:26:44# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla skýrslu um utanríkismál. Eins og hann sagði réttilega er ekki hægt að fjalla með góðu móti um þann mikla fjölda mála sem utanrrn. hefur á sinni könnu í stuttri ræðu. Einnig má öllum vera ljóst að umsvif þessa ráðuneytis fara vaxandi og afgreiðsla mála krefst oft mjög skjótra viðbragða því hlutirnir gerast hratt á okkar tímum.

Ég vil, sem formaður Íslandsdeildar Vestur-Evrópu\-sam\-bands\-ins, VES, fjalla um þann kafla sem snýr að evrópskum öryggis- og varnarmálum og þeim breytingum sem nú eiga sér stað með fyrirhugaðri innlimun Vestur-Evrópusambandsins í ESB. Málefni VES hafa ekki farið hátt í sölum Alþingis þrátt fyrir að þessi samtök, sem eru Evrópustöð NATO, hafi starfað í 44 ár. Þar kemur eflaust margt til en tvíhliða varnarsamningur okkar við Bandaríkjamenn er kannski ein helsta ástæða þess.

Þó málefni okkar innan NATO séu í góðum farvegi og staða tvíhliða samnings við Bandaríkin standi traustum fótum, þá er þróun varnar- og öryggismála í Evrópu okkur viðkomandi. Aðild okkar að VES hefur verið vettvangur okkar innan Evrópu á þessu sviði. Þar erum við, sem NATO-ríki, aukaaðilar með tillögu- og málfrelsi í ráðum og nefndum VES sem fjalla um varnar- og öryggismálefni Evrópuríkja. Starf VES hefur verið verulegt á síðustu árum og snúið að átökum innan Evrópu, í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og Albaníu og víðar. VES er sem Evrópustöð NATO eini aðilinn í beinu sambandi við yfirstjórn NATO.

Innan VES eru einnig þjóðir með áheyrnarfulltrúa sem hvorki eru í NATO né ESB, t.d. fyrrum ríki Sovétríkjanna. Til að vera fullgildur aðili í VES þurfa ríki að vera innan ESB og í NATO. Innan ESB hefur verið sterk krafa um að þær breytingar verði að Evrópa taki sjálf á sínum innri málum án tilstilli Bandaríkjamanna en þó með herstyrk NATO. Undir þetta sjónarmið hafa Bandaríkjamenn tekið en þó með þeim fyrirvara að Evrópuríki NATO sem ekki eru í ESB verði fullgildir aðilar að þeim breytingum.

Með sameiginlegri yfirlýsingu forustumanna NATO-ríkjanna í Washington sl. vor var lögð gríðarlega mikil áhersla á þetta sjónarmið. Ný öryggis- og varnarstefna ESB byggðist á því fyrirkomulagi sem þróað hefur verið í samskiptum NATO og VES. Á fundi ESB-ríkja í Köln í sumar voru ákvarðanir þó teknar í allt öðrum anda en var í Washington og er nú talað með, leyfi forseta: ,,satisfactory arrangements`` eða ,,full possible involvement`` NATO-ríkjanna í Evrópu sem ekki eru í ESB. Fyrir Ísland þýðir þetta að þátttaka okkar í þessum breytingum í varnarmálum Evrópu er mjög takmörkuð. Þetta getur einnig merkt að Evrópuríki í NATO verði skipt í flokka, þ.e. NATO-ríki í ESB og önnur NATO-ríki í Evrópu ásamt Tyrklandi. Það eru margar spurningar sem vakna ef þessi þróun verður, spurningar um stöðuna innan NATO og einnig hvernig málefni NATO verða meðhöndluð innan ESB.

[16:30]

Innan ESB eru ríki sem ekki eru aðilar að NATO og eiga ekki aðgang að herafla NATO. Evrópuþingið er samansett af þessum ríkjum ásamt Evrópuríkjunum innan NATO en þar hefur umræðan um varnarmál verið mjög takmörkuð, enda hafa þjóðþing Evrópu og VES haldið á þeim málefnum og því mjög óljóst hvernig Evrópuþingið getur komið að þessu máli í stað þjóðþinganna og VES.

Innan þings VES sem kemur saman tvisvar á ári hafa slíkar umræður farið fram á milli allra Evrópuríkjanna í NATO og Tyrkja að auki. Alþingi hefur átt þrjá fulltrúa á þessum þingum sem á margan hátt hafa tekið þátt í þeim umræðum.

Herra forseti. Fyrir Alþingi Íslendinga er mjög mikilvægt að þátttaka okkar í nýju fyrirkomulagi, ef VES verður innlimað í ESB, verði sambærileg og hún er nú innan VES. Aðkoma þjóðþinga að varnarsamtökum eins og NATO hefur verið ein af ástæðum þess hve mikil sátt hefur ríkt um þau samtök. Að splundra VES í því augnamiði að styrkja ESB gæti leitt til þess að NATO yrði veikara.

Ég vil í þessu sambandi lýsa yfir ánægju með það hvernig hæstv. utanrrh. hefur tekið á þessu máli og ætlar að leita eftir samstarfi þeirra Evrópuríkja sem ekki eru í ESB og sjá hagsmuni sína í óvissu. Það er nokkuð ljóst að not ESB af NATO gætu orðið mjög takmörkuð ef ekki er sátt innan allra ríkja NATO um hvernig þau verða. Ég vona að ásættanleg niðurstaða náist í þessu máli og vil ég leggja áherslu á þá skoðun að án beinnar aðildar þjóðþinga í hinu nýja fyrirkomulagi er beygt af þeirri mikilvægu og heillavænlegu braut sem fylgt hefur verið innan NATO og VES. Ég legg áherslu á að hæstv. utanrrh. gæti hagsmuna Alþingis í þessu máli, fulltrúar Alþingis í VES muni gera það á þingi VES í París um næstu mánaðamót.

Einn af köflum í ræðu hæstv. utanrrh. var þróunarsamvinna og þróunarstarf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Ég ætla að víkja fáeinum orðum að því, herra forseti, en starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er mörgum þekkt og það starf hefur verið afskaplega farsælt og margir frábærir starfsmenn hafa staðið þar að verki. Það er að sjálfsögðu oft mikið álitamál hvernig á að standa að þróunaraðstoð og hvaða svið eigi að njóta aðstoðar frá slíkum stofnunum eins og Þróunarsamvinnustofnun og þróuðum ríkjum almennt. Eins og ég hef kynnt mér þessi mál þá hefur mér sýnst að Þróunarsamvinnustofnunin hafi beint aðstoð sinni inn á þá málaflokka sem skipta verulega miklu máli fyrir hin fátæku ríki. Vil ég þá nefna sem dæmi að þróa upp fiskveiðar hjá fátækum ríkjum, bæta skólakerfi, koma upp vatnsdælum og heilbrigðiskerfi sem geti þjónað ríkjum sem eru mjög neðarlega á því sviði. Að því leyti til hefur mér sýnst þróunin einmitt vera í þá áttina en ekki í mjög stór verkefni sem hafa oft á tíðum skilað mjög litlum árangri.

Það er líka álitamál í mínum huga hvaða lönd eigi að njóta aðstoðar og þá hve lengi. Ég held að það fari ekkert á milli mála hjá þeim sem kynna sér málin að ríki eins og Malaví, Mósambík, Tansanía, Úganda og fleiri Afríkuríki þurfa svo sannarlega á aðstoð halda. Maður veltir því þó fyrir sér varðandi ríki eins og Namibíu hversu lengi eigi að halda áfram að aðstoða ríki sem hafa í raun mjög góða stöðu fjárhagslega í dag miðað við þau fátæku ríki sem njóta einnig aðstoðar okkar í Afríku. Þá er ég eingöngu að miða við þjóðarframleiðslu á íbúa og muninn á henni milli annars vegar fátækustu ríkjanna og hins vegar Namibíu sem hefur notið góðrar aðstoðar af hálfu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þar hefur þróast upp mjög góður sjávarútvegur og fiskveiðar í skjóli þess. Ég vil rétt aðeins slá þessu fram til umhugsunar hvort einhverjar hugmyndir eða áætlanir séu um breytingar á þessu sviði af hálfu ráðuneytisins.

Við þurfum að sjálfsögðu, herra forseti, að leggja áherslu á að við leggjum til þróunarmála jafnmikið og aðrar þjóðir sem við viljum miða okkur við. Ég tel að staða okkar meðal þjóðanna sé slík að við getum ekki til langframa verið að greiða inn í þetta starf mun lægri upphæðir en aðrar þróaðar þjóðir. Ég tek því undir það sem sagt hefur verið hér um þessi mál að við eigum að flýta okkur að ná þeim þjóðum sem skara fram úr á þessu sviði.

Ég vil segja það að lokum, herra forseti, að ég sé og finn að störf utanrrn. og starfsmanna þess hafa verið mjög árangursrík og starfsfólk þess hefur staðið vel að málum en fólk gerir sér í raun ekki grein fyrir hvað þau eru umfangsmikil. Ég þakka það ekki síst góðu skipulagi og góðri stjórnun á því ráðuneyti eins og hún hefur verið á undaförnum árum.