Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:53:53 (978)

1999-11-02 16:53:53# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort Íslendingar og íslensk stjórnvöld hefðu engar áhyggjur af loftslagsbreytingum. Jú, við höfum áhyggjur af loftslagsbreytingum. En við neitum að trúa því, eins og hv. þm. virðist gera, að það muni hjálpa þessum loftslagsbreytingum að við afsölum okkur réttinum til að nýta hreinar og endurnýjanlegar náttúruauðlindir Íslands, enda er það út í hött. Mér finnst það undarlegur tvískinnungur í málefnaflutningi vinstri grænna á Alþingi að gera lítið úr því þegar við tölum um sérstöðu Íslands í þessu máli. En svo er það allt öðruvísi þegar verið er að tala um Evrópusambandið. Um hvað fjallar málflutningur hv. þingmanna vinstri grænna á Alþingi í þessu máli? Það er að samþykkja gagnrýnislaust allt sem aðrar þjóðir leggja fyrir okkur og undrast að vilji skuli vera til þess af hálfu íslenskra stjórnvalda að halda fram sérstöðu okkar. Auðvitað höfum við sérstöðu í þessu máli.

Hv. þm. talaði um umhverfisverndarsinna, náttúruverndarsinna, eins og þeir einir væru á móti hvalveiðum og á móti virkjunum. Er það þannig? Og gæti ekki verið að gá þyrfti að því hvort þeir sem sigla undir þessu flaggi, sem ég hef nú séð sigla undir fölsku flaggi, gangi of langt í því að skemma hluti? Eða er hv. þm. sammála því að það hafi verið allt í lagi að sökkva hvalveiðibátum hér við land í nafni umhverfisverndar og ekki hafi verið ástæða til að hafa uppi viðbúnað þegar það var gert? Er það í lagi? Og gæti ekki verið alveg full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart slíku fólki?