Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:57:33 (980)

1999-11-02 16:57:33# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég botna nú ekkert í þessari ræðu. Nú segir hv. þm. um virkjanir að það megi virkja, bara ef orkan er notuð í eitthvað annað, væntanlega í að framleiða vetni eða eitthvað slíkt, það megi bara ekki nota það í að framleiða ál, jafnvel þó að vitað sé að ál er léttmálmur sem skiptir miklu máli í baráttunni gegn mengum. Nú segir hv. þm. allt í einu að sennilega megi gera miðlun á Eyjabakka og ýmislegt annað, bara ef það er notað í rétta hluti. Ég leyfi mér að setja samasemmerki á milli öfga í þessu máli. Ég hef upplifað þær öfgar sem ég og fleiri stóðum frammi fyrir í sambandi við hvalveiðar. Þá var því beinlínis haldið fram að enginn náttúruverndarsinni væri til á þessari jörð nema hann væri á móti hvalveiðum. Þetta var afstaða þessa fólks. Mér heyrist að hv. þm. sé þeirrar skoðunar að það sé eiginlega enginn náttúruverndarsinni sem er meðmæltur virkjunum. Mér hefur fundist hún tala þannig. Ég fullyrði að það er tvískinnungur í málflutningi þessa þingsflokks á Alþingi í Kyoto-málinu annars vegar og Evrópusambandsmálum hins vegar því að Kyoto-málið gengur einmitt út á að afsala sér ákveðnu sjálfstæði. Og þessi hv. þingflokkur vill algjörlega afsala sjálfstæði Íslands í þessu máli, algjörlega, og taka við fyrirskipunum frá tvö hundruð áttatíu og eitthvað umhverfisverndarsamtökum núna úti í Bonn, ef ég skildi hana rétt.