Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:00:55 (982)

1999-11-02 17:00:55# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst áhugi hv. þm. á þróun lofthjúpsins lofsverður. Ég held líka að það geti verið gott að horfa til himins svona stundum en hins vegar er ekki gott að horfa alltaf til himins, menn þurfa líka að horfa fram fyrir fæturna þannig að þeir detti ekki. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þm. í sambandi við þróun lofthjúpsins og afstöðu Evrópuþjóðanna til Kyoto-bókunarinnar, það vantar eitthvað í þetta.

Nú langar mig til að spyrja hv. þm. hvort hún hafi áttað sig á því, af því hún vitnaði sérstaklega í Dani og aðrar Evrópuþjóðir sem krefjast þess að Kyoto-bókunin verði undirrituð, hvernig stefnumörkun þessara Evrópuþjóða er að því er orkunýtingu varðar. Hvaða orkulindir þeir ætli sér að nota, hvert nýtingin stefnir, hvort það stefni til meiri notkunar á kolum, olíu og gasi eða til minni notkunar á koli, olíu og gasi því að þetta verða menn að lesa saman við yfirlýsingar um Kyoto-bókunina. Ef menn hafa ekki kynnt sér hver eru stefnumál Evrópuþjóðanna í orkunýtingu og hvernig á að framleiða raforku þá eru allar umræður, háttstemmdar yfirlýsingar um Kyoto-bókunina, í svolítið lausu lofti. Nú vil ég gjarnan að hv. þm. komi og upplýsi mig um hvernig orkunýtingarstefna Evrópuríkjanna er og hvernig landslagið er í þeim efnum. Ef hún veit ekki af þessu þá er ég tilbúinn að upplýsa þingmanninn um það.