Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:02:49 (983)

1999-11-02 17:02:49# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt og í þeim stutta tíma sem ég hef til andsvara get ég að sjálfsögðu ekki gefið viðhlítandi skýringar á stefnu Evrópuríkjanna í orkumálum. Ég viðurkenni það líka fúslega, hv. þm. Tómas Ingi Olrich, að ég gæti ekki haldið lærða ræðu um stefnu Evrópuríkjanna í orkumálum. Hitt veit ég og hef lesið mér til um og er á hverjum degi að lesa meira um það að þjóðir Evrópuríkjanna, eins og Danir sem ganga hvað lengst í þessum málum og vilja hvað harðast berjast fyrir þeim verndunarsjónarmiðum sem ég stend fyrir, eru að reyna að leggja allt sitt á vogarskálarnar til þess að draga úr losun sinni. Ég nefni eitt dæmi sem er áhrifaríkt, það er varðandi einkabílinn. Danir leggja mikið kapp á að efla almenningssamgöngur, efla samgöngur sem byggja á öðrum orkugjöfum en bensíni. Við vitum að samgöngutæki okkar losa stóran hluta af þeim gróðurhúsalofttegundum sem hér um ræðir.

Ég vildi óska að við værum jafnötul og Danir í að vinna gegn þessum áhrifum, t.d. hjá fiskiskipaflotanum okkar, en við vitum að það er hann sem losar hvað mest af þessum óheillavænlegu tegundum út í lofthjúpinn.

Hins vegar hlakka ég til að eiga áframhaldandi samræður við hv. þm. Tómas Inga Olrich og ég er sannfærð um að hann getur frætt mig um eitt og annað er varðar orkustefnu Evrópuríkja og ég get frætt hann um eitt og annað er varðar umhverfismál og verndun náttúrunnar.