Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:06:39 (985)

1999-11-02 17:06:39# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. komst svo að orði í ræðu sinni, með leyfi forseta: ,,Djörfung og víðsýni hefur oftast einkennt íslenska utanríkisstefnu.`` Gott ef satt væri, herra forseti. Djörfung er ekki fyrsta orðið sem kemur upp í huga minn þegar utanríkisstefnu Íslands síðastliðna hálfa öld ber á góma. Þó er það svo að víðsýni hefur aukist í ráðuneyti utanríkismála á undanförunum missirum en betur má ef duga skal, hæstv. forseti.

Vissulega er fagnaðarefni að hæstv. utanrrh. vilji gera gangskör að því að fram fari upplýst og málefnaleg umræða um stöðu Íslands í Evrópu og um gildi EES-samningsins og hver bein áhrif yrðu ef Ísland yrði aðildarríki að ESB, svo að vitnað sé til orða hæstv. utanrrh., með leyfi forseta. Hér er eins og kom fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar fyrr í dag sótt í sjóði Samfylkingarinnar um stefnumótun í Evrópumálum og það er til sóma.

Formennsku Íslands í Evrópuráðinu lýkur í þessari viku að því er ég veit best. Hæstv. utanrrh. gerði málefni Mannréttindadómstólsins að umræðuefni. Brýnt er að aðildarríki Evrópuráðsins taki höndum saman og tryggi hærri fjárveitingar til Mannréttindadómstólsins og það er von mín að íslensk stjórnvöld slái alls ekki slöku við í því efni þótt formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins sé nú u.þ.b. að ljúka.

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á nýlega heimsókn hæstv. utanrrh. og nýs framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til Úkraínu nú í fyrri mánuði. Eflaust hefur hæstv. utanrrh. haft bæði gagn og gaman af heimsókninni en það verður að segjast eins og er, herra forseti, að ekki hefði verið hægt að velja óheppilegri tíma til fararinnar, hálfum mánuði fyrir forsetakosningarnar þar, og í raun og veru beint inn í illvíga kosningabaráttu í erlendu landi. Hæstv. utanrrh. á ekki hrós skilið fyrir Úkraínuförina en hins vegar var þátttaka Íslands í Sarajevó-ráðstefnunni um stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu okkur til sóma, ekki síst vegna áherslu hæstv. ráðherra á að allar þjóðir Balkanskaga sitji við sama borð þegar alþjóðleg aðstoð við uppbyggingu á Balkanskaga er annars vegar. Herra forseti. Það á einmitt að vera hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi að beita sér fyrir jöfnuði, réttlæti og mannréttindum.

Hæstv. forseti. Á þessu ári voru framlög stjórnvalda til þróunarsamvinnuverkefna aukin um 57 millj. kr. Þó er það enn svo að við erum eftirbátar nágrannaríkjanna í framlögum til þróunarmála eins og fram hefur komið, en þróunarsamvinna við fátæk lönd verður æ mikilvægari í utanríkissamskiptum Íslands og það er löngu tímabært að stjórnvöld hér móti stefnu til langs tíma um markmið og meginverkefni þróunarsamvinnunnar og aðstoð Íslands við fátæk ríki. Samfylkingin er að sjálfsögðu reiðubúin til þess að taka þátt í slíkri stefnumótun.

Herra forseti. Það er rétt að hnattvæðingin sneiðir ekki fram hjá Íslandi frekar en öðrum löndum. Á henni eru ýmsar hliðar, bæði góðar og slæmar. Við höfum nýverið á hinu háa Alþingi rætt dökku hliðar hnattvæðingarinnar sem birtast m.a. í verslun með manneskjur og öðrum ófögnuði sem henni fylgir. Barátta við alþjóðlega glæpastarfsemi sem slíka er hluti af því sem Ísland verður að beita sér fyrir af fullri hörku.

Sérstöðupólitíkin sem hefur lengi verið aðal íslenskrar utanríkisstefnu, og birtist nú m.a. í afstöðu stjórnvalda til Kyoto-bókunarinnar, er pólitík fortíðarinnar og ber hvorki vott um djörfung né framsækni. Framsækin utanríkisstefna byggir á virðingu fyrir mannréttindum og stöðugri baráttu fyrir réttlæti og lýðræði. Það á að vera leiðarljós okkar í utanríkisstefnunni og sú barátta er vissulega hnattræns eðlis.