Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:12:06 (986)

1999-11-02 17:12:06# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir málefnalega ræðu. Ég tek því eins og það er að hún sé því ósammála að fara að heimsækja land undir þeim aðstæðum sem þar voru, þ.e. Úkraínu. Ég er hins vegar sannfærður um að það var rétt að fara í þessa heimsókn. Að vísu er rétt að við komum inn til landsins þegar hatrömm kosningabarátta átti sér stað. Við ræddum bæði við fulltrúa ríkisstjórnar, fulltrúa forseta og stjórnarandstöðunnar og eyddum mjög löngum tíma í þinginu til að fara þar yfir mál. Ég held að það hafi einmitt verið rétt að þrýsta á bæði þingið og forsetann og ríkisstjórnina hvað það varðaði að uppfylla skilyrði Evrópuráðsins á þessum tíma. Okkur tókst algjörlega að sneiða hjá þeim hatrömmu átökum sem þarna eru að mestu leyti. En við sáum þörfina fyrir það að efla eftirlit með kosningunum og það var gert, bæði á vegum ÖSE og á vegum Evrópuráðsins, sem var nauðsynlegt. Ég held að þeir sem telji sig vera þar í stjórnarandstöðu hafi jafnframt fengið tækifæri þegar þessi heimsókn átti sér stað til að komast betur að fjölmiðlum vegna þess að við áttum viðræður við þá. Ég er því þeirrar skoðunar að þessi heimsókn hafi verið til góðs og það hefði verið algjörlega rangt að fresta henni eða fella hana niður. Hún var farin eftir umræður á Evrópuþinginu við fulltrúa allra sendinefnda þar og fulltrúa allra ríkja og lokum var samstaða um að rétt væri að fara þessa ferð og hún var farin.