Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:14:25 (987)

1999-11-02 17:14:25# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:14]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. að koma inn á heimsóknina, hina opinberu heimsókn hans sjálfs og framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til Úkraínu nú í liðnum mánuði. Mér er fullkunnugt um það að hæstv. utanrrh. fór þessa ferð að vel íhuguðu máli. Ég tel hins vegar skyldu mína að vekja athygli á því að auðvitað eru tvær hliðar á þessu máli og má vera að forustumenn Evrópuráðsins hafi metið það svo að fara ætti í opinbera heimsókn til Úkraínu tveim vikum fyrir forsetakosningar. Hafa skal það líka í huga að í Úkraínu eru t.d. frjálsir fjölmiðlar lítt þekkt fyrirbæri þannig að við vitum það í raun og veru ekki og munum líklega aldrei vita hvers konar umfjöllun sú heimsókn fékk. Ég vil bara að það komi fram hér, hæstv. forseti, að ég komst að yfirveguðu máli að gagnstæðri niðurstöðu en hæstv. utanrrh. og ég held að í raun og veru hafi ekkert staðið í vegi fyrir því að þessi för yrði farin síðar á árinu.