Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:14:16 (1000)

1999-11-02 18:14:16# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki verið að hvetja til loftárása í Tsjetsjeníu. Ég hef verið að mótmæla loftárásum í Tsjetsjeníu og ég hef leyft mér að fara þess á leit við hæstv. utanrrh. Íslands að hann geri slíkt hið sama og óskaði eftir því að hann kallaði sendiherra Rússlands á sinn fund og mótmælti fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Það sem ég hef verið að vekja athygli á er að landafræði samvisku íslensku ríkisstjórnarinnar fer saman við landafræði NATO og hagsmuni NATO. Innan Sameinuðu þjóðanna er ég að hvetja til þess að við tökum upp aðra starfshætti. Í stað þess að við fylgjum stórveldunum í einu og öllu, fylgjum NATO í einu og öllu, þá látum við samviskuna ráða vegna þess að það er þetta sem stendur öllu alþjóðasamstarfi og samvinnu fyrir þrifum, þ.e. þegar verið er að nota og beita samtökum á borð við Sameinuðu þjóðirnar í þágu hagsmuna hernaðarveldanna.

Þannig högum við okkur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, því miður. Þar hafa blokkir myndast, þ.e. Evrópusambandið og NATO-ríkin og ríki sem eru svipaðs sinnis, síðan eru aðrar blokkir sem eru þróunarríki, og áður voru það austantjaldsríkin eða kommúnistaríkin. Þannig hefur þetta alþjóðasamstarf verið skipulagt.

Við erum að hvetja til þess að menn komist upp úr þessum hjólförum. Við erum að hvetja til þess innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að menn fari upp úr þessum hjólförum hernaðarhyggjunnar og stórveldahagsmuna því að aðeins með því móti er hægt að komast úr stað.