Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:16:28 (1001)

1999-11-02 18:16:28# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:16]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Það er liðið nokkuð á þessa umræðu og ég ætla ekki að lengja hana mikið en vil þó taka upp þráð sem féll niður að ósekju í upphafi umræðunnar. Hann féll kannski niður vegna þess að menn ræddu Evrópusambandið af miklum móð. Það er sá kafli ræðu hæstv. utanrrh. sem fjallar um, eins og það heitir, evrópsk öryggis- og varnarmál.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði um það og furðaði sig nokkuð á því að í þeim kafla kæmu ekki fram markmið utanrrh. við væntanlega endurskoðun eða nýsamning bókunar við varnarsamninginn eins og hann heitir. Bókunin er frá 1996 eins og menn vita. Hún gildir til ársins 2001, í fimm ár, gerð af hæstv. utanrrh. Íslands, Halldóri Ásgrímssyni, og aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Walter B. Slocombe.

Í lokagrein þessarar bókunar er ákvæði um að heimilt sé og væntanlega skylt, eða ég skil það þannig, að endurskoða þetta samkomulag að loknum fjórum árum. Það þýðir að ef maður leggur fjögur ár við undirritunardag þess, þá er sá dagur 9. apríl árið 2000, sem mér sýnist þýða að það hljóti að vera eitt af helstu verkefnum utanrrn. á næstu mánuðum, a.m.k. eftir áramótin, að undirbúa samningsmarkmið Íslendinga um einhverja nýja bókun og meta hvernig að þeim samningum skuli staðið, væntanlega í ljósi þess sem gerst hefur eftir allt saman í öryggis- og alþjóðamálum á þessum tíma.

Ég vona að hæstv. utanrrh. sjái sér fært að svara þessum spurningum, þ.e. af hverju þetta er ekki inni eða hvort þetta eigi að koma fram síðar og þá hvenær. Mig langar til að bæta við örfáum atriðum því að það kemur þó fram að utanrrn. hefur stefnu í málinu og hæstv. utanrrh., sem er sú að ,,gera þátttöku Íslendinga í vörnum landsins virkari``, eins og hæstv. utanrrh. sagði.

Í framhaldi af því er nefnd smíði 3.000 tonna varðskips sem á fyrir utan hefðbundna landhelgisgæslu að taka þátt í æfingum og sjóferðaeftirliti í samstarfi við varnarliðið. Virðulegur forseti. Ég veit að mér verður fyrirgefið að vita ekki mikið um þetta mál, (Gripið fram í.) enda sit ég ekki á þingi á hverjum degi og hlustaði ekki nógu vel eftir þeirri umræðu sem varð um smíði hins nýja skips. Ég tók þó eftir því að til þess að forðast útboð á Evrópska efnahagssvæðinu þá varð þingheimur furðusammála um að þetta umrædda skip skyldi falla undir varnarskip og ekki nytjaskip. En ég vissi ekki að því fylgdi að það væri með einhverjum hætti sett í samstarf eða undir stjórn varnarliðsins svokallaða af Keflavíkurflugvelli og spyr þess vegna sérstaklega um þetta: Liggja fyrir samningar um þátttöku þessa skips í æfingum og þá hvers konar æfingum? Hvers konar sjóferðaeftirlit á það að annast í samstarfi við varnarliðið og hver stjórnar þá ferðum þessa skips fyrir utan hefðbundna landhelgisgæslu?

Mig langar líka að spyrja um annað. Það er eitt helsta inntak bókunarinnar frá 1996 að þar er tiltekið að þyrlubjörgunarsveitinni skuli viðhaldið þessi fimm ár sem hún gildir. Menn hafa haft á orði að þessi þyrlubjörgunarsveit sé hin raunverulega ástæða fyrir töluverðum hluta þess flugflota sem samið er um að sé hér á landi og sé þar með okkur í hag. Út af fyrir sig er ég ekki að lasta það. En þarna er líka ákvæði um að haldið verði áfram að kanna leiðir til þess að Ísland taki á sig aukna ábyrgð á sviði björgunarmála. Ég spyr hæstv. utanrrh. sérstaklega um þetta vegna þess að ég minnist þess að fyrir allnokkrum árum, að vísu áður en hann varð utanrrh., að þá sló hann fram athyglisverðri hugmynd um alþjóðlega björgunarsveit á Keflavíkurflugvelli sem tæki að einhverju leyti eða öllu við þeirri björgunarsveit sem við þiggjum núna aðstoð frá og er bandarísk og hluti af herliðinu. Það fylgdi svo ekki þessari hugmynd hvort þetta yrðu herbjörgunarsveitir eða hvernig þær yrðu. En ég minnist þess að hún átti að vera bæði að austan, vestan og alla vega þessi björgunarsveit.

Ég held að ég láti þetta nægja en vil þó, þó ég geri það sjaldan, taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni frá því fyrr í dag um þær hugmyndir sem utanrrn. og hæstv. utanrrh. hefur um ráðstefnu um framtíð öryggismála. Ég held að það sé ofboðslega brýnt að koma umræðu og upplýsingum, einmitt um framtíð öryggismála, um bókunina, um varnarliðið, um áframhaldandi þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, sem ég styð hér í aukasetningu, á framfæri og gera þjóðinni, bæði okkur og okkar heimshluta, kleift að taka framtíðarákvarðanir á þessu sviði. Ég held að ráðstefna sem annars vegar utanrrn. og hins vegar herstjórn Atlantshafsbandalagsins standi að verði ekki til þess að skapa traust á því sem þar kemur fram, hún verði ekki til þess að veita upplýsingar sem menn geta sameinast um að nota sem undirstöðu í þessari mikilvægu umræðu. Þess vegna legg ég til við hæstv. utanrrh. að hann fjölgi aðstandendum þessarar ráðstefnu þannig að þangað verði boðið óháðum stofnunum um herfræði, sem verða auðvitað að þekkja vel herstjórn og aðstæður á Atlantshafi, þannig að hér verði fleiri litir í ráðstefnunni og hún verði mikilvægari en ella í framhaldsumræðu okkar um þessi mál.