Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:27:22 (1004)

1999-11-02 18:27:22# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar varðskip, þá eigum við verulegt samstarf við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og við eigum í verulegu samstarfi við aðrar þjóðir á sviði björgunarmála. Ég minni á æfingu sem var hér haldin vegna náttúruhamfara og sú æfing skilaði m.a. árangri í björgunarstörfum eftir náttúruhamfarirnar í Tyrklandi.

Að því er varðar varðskipið sjálft, þá á m.a. að vera hægt að nota þetta varðskip til þess að þar lendi þyrlur. Það er eðlilegt að þetta varðskip geti tekið þátt í sameiginlegum björgunaræfingum og tekið meiri og virkari þátt í því nauðsynlega starfi sem við sjáum hér að þurfi að eiga sér stað til frambúðar á Norður-Atlantshafi, alveg án tillits til veru varnarliðsins hér á landi. Þetta er okkar markmið og það hefur verið rætt við Bandaríkjamenn, ekki gerður endanlegur samningur um það en okkur finnst eðlilegt að þetta skip komi að slíku sameiginlegu starfi innan Atlantshafsbandalagsins þannig að það geti tekið þátt í þess konar samvinnu. Hins vegar verður þetta skip eins og allir vita ekki neinum vopnum búið nema þá til þess að taka á landhelgisbrjótum. Þar verður engin breyting á.