Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:29:06 (1005)

1999-11-02 18:29:06# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta svar jafnóljóst og svörin áðan voru greið. Ég geri mér grein fyrir að hæstv. utanrrh. getur ekki svarað þessu andsvari fyrr en þá í lokaræðu sinni en ég lít svo á að hann hafi hér verið að segja okkur að þetta umrædda varðskip verði undir íslenskri stjórn að öllu leyti og fullkomlega og ekki undir stjórn herstjórnar Atlantshafsbandalagsins. En hæstv. utanrrh. getur bætt við það síðar.

Ég gleymdi því áðan en vil vekja athygli á þeim orðum sem komu fram í andsvari hæstv. utanrrh. um þessa bókun eða framhald hennar, að það mundi vera svo að við mundum vilja halda áfram að hafa flugvélarnar á vellinum því ef flugvélarnar fara í burtu, þá fara björgunarsveitirnar í burtu líka. Þarna er kannski kominn einn af þeim hyrningarsteinum sem er undir þessum varnarsamningi. Við viljum hafa björgunarsveitina en okkur er andskotans sama, fyrirgefðu herra forseti, um flugvélarnar. (Gripið fram í: Þetta er algjör rangtúlkun.)

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þingmenn á að bölva ekki í þingsal.)