Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:30:29 (1006)

1999-11-02 18:30:29# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:30]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fróðlega skýrslu og ég get vissulega tekið undir margt sem er í henni en mér finnst kannski ýmislegt vanta. Að hluta til hefur hæstv. ráðherra gefið á því skýringu. Auðvitað var hér um knappt form að ræða þegar á að fara yfir allt sviðið sem heitir utanríkismál en ég hefði viljað að á þessum viðkvæmu tímum væri t.d. tekin afstaða til atburðanna í Tsjetsjeníu og ég vil taka undir það sem hér hefur áður komið fram. Ég sakna þess.

Það kemur víst engum á óvart í þingsölum að ég hef löngum verið nokkuð tortryggin í garð þátttöku okkar í hernaðarbandalaginu NATO. Var ég þó farin að mýkjast mjög í þeim sökum á síðasta ári, hafði eins og það er kallað af sumum sofnað á verðinum og var farin að trúa á tal um ,,Partnership for Peace`` og breytt eðli NATO. Ég vaknaði heldur betur af vondum draumi þegar árásirnar hófust á Júgóslavíu, sem er eitthvert mesta áfall sem ég hef orðið fyrir á þessu ári, og ég verð að harma það að Íslendingar skyldu taka þátt í þeim hernaðaraðgerðum sem ég tel mikið óhappaverk.

Við áttum aðild að þeirri ákvörðun að sprengjum var látið rigna yfir fjarlægt og fátækt land undir því yfirskini að það væri eina ráðið til að stöðva morð þau og misþyrmingar sem Serbar beittu Kosovo-Albani. Nú er of seint að ræða um hversu fráleitur sá málatilbúnaður allur var og of seint er líka að harma hlutdeild okkar í þeirri atburðarás allri.

Þau umsvif okkar á Balkanskaga hafa því miður afleiðingar sem við berum að sjálfsögðu ábyrgð á vegna þátttöku okkar. Rannsókn sem gerð var af Umhverfisstofnun Mið- og Austur-Evrópu leiðir í ljós að matvæli eru menguð vegna jarðvegs- og loftmengunar. Mengun er í drykkjarvatni. Búast má við vaxandi heilbrigðisvandamálum vegna eyðileggingar á vatns- og skolpleiðslum og ekki síður vegna eitraðra og krabbameinsvaldandi efna og geislavirkni. Hér er um að ræða eitt af fátækari löndum Evrópu og er líklegt að framtak okkar Íslendinga og vina okkar sérstakra í málefnum Balkanskaga hafi ekki aukið á skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu.

Augljóst er að á næstu áratugum þurfa fórnarlömb þessara átaka mikla hjálp til að mannlíf geti þróast þar á eðlilegan hátt. Ég tel að við Íslendingar eigum að sýna yfirbót með því að standa myndarlega að skilyrðislausri hjálp við fórnarlömb okkar og ég tel reyndar að hæstv. utanrrh. Íslands hafi að nokkru leyti tekið undir það sjónarmið, að hjálpin til Júgóslavíu eigi að vera skilyrðislaus.

Bandaríkjamenn og þeirra fylgispökustu skósveinar vilja skilyrða hjálp til hinnar stríðsþjáðu þjóðar við að Milosevic láti af völdum. Ekki er um það efast að Milosevic er hinn versti maður. Hann er hins vegar rétt kjörinn forseti landsins og ég treysti Serbum til að skipta honum út fyrir annan betri án þess að til þurfi að koma svo ógæfuleg aðferð að múta fólki sem er í neyð með aðstoð til að snúast gegn honum. Við Íslendingar berum okkar hlut af þeirri ábyrgð að hafa valdið þeim hörmungum sem ég áður minntist á. Okkur ber skylda til að standa myndarlega að skilyrðislausri hjálp til fórnarlamba okkar.

Hæstv. forseti. Í seinni hluta ræðu minnar langar mig einkum að gera norrænt samstarf að umfjöllunarefni en ég er ein af þeim sem sitja í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og hef setið þar um eins árs skeið. Ég vil ítreka og taka undir það sem áður hefur komið fram um mikilvægi þess að Íslendingar taki þátt í samstarfi. Ísland er lítil eyja úti í ballarhafi, eins og sumir segja á mörkum hins byggilega heims, og ég tel það skipta okkur miklu máli að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Ég tel að greiðasta leiðin til að hafa áhrif glóbalt fyrir okkur Íslendinga sé mjög virk þátttaka í hinu norræna samstarfi en gegnum það eigum við vissulega möguleika á að hafa áhrif. Ísland er sögulegur og menningarlegur hluti af Norðurlöndum. Íslendingar eru í norrænni samvinnu jafnréttháir Dönum, Finnum, Norðmönnum og Svíum þrátt fyrir augljósan stærðarmun þjóðanna og þar hefur alltaf verið tekið fullt tillit til íslenskra hagsmuna og stór skref hafa verið stigin til framfara í slíkri samvinnu. Íslendingar hafa notið góðs af þessu bræðralagi, bæði efnahagslega og pólitískt.

Það hefur borið nokkuð á því í umræðu á Íslandi að norrænt samstarf væri úrelt, það væri ekki móðins, eins og sagt er á vondu máli. En ég tel að það sé fjarri lagi og við höfum náð, eins og ég hef sagt hér áður, mörgum af okkar bestu markmiðum í erlendu samstarfi gegnum norræna samvinnu og munum eiga eftir að hafa þar mikil áhrif.

Á Norðurlöndum hefur verið sameiginlegur vinnu- og menntamarkaður fyrir tilstilli norrænnar samvinnu og einnig höfum við að mörgu leyti haft sameiginleg félagsleg réttindi. Íslendingar eru svo heppnir að þeir geta bent á beinan ávinning af því samstarfi. Við höfum borgað um 1% af kostnaðinum við norrænt samstarf en til okkar hafa runnið beint 3--4% hins vegar af þeim potti í formi reksturs stofnana, þátttöku í áætlunum og styrkjum svo fátt eitt sé nefnt. Við erum kannski sú þjóð innan Norðurlandanna sem hefur haft beinastan hagsmunalegan ávinning af þessu samstarfi.

En auðvitað er enginn annars bróðir í leik. Norðurlandaþjóðirnar standa vissulega fast á eigin hagsmunum og skemmst er að minnast Smugudeilunnar þar sem Íslendingar og Norðmenn tókust harkalega á og sem betur fer fékk sú deila að ég tel farsælan endi fyrir tilstilli hæstv. utanrrh. Íslands ekki síst og vil ég þakka það sérstaklega.

Innan Norðurlandaráðs er líka oft tekist harkalega á um skiptingu fjármagns. Þar verða íslenskir þingmenn, og hafa gert vissulega, að standa vel á verði og vera ætíð tilbúnir þegar færi gefst að tala máli Íslands. Til dæmis má benda á að oft hefur verið erfitt að verja Norrænu eldfjallastöðina miklum boðaföllum sem hún hefur orðið fyrir þegar verið er að semja fjárlög Norðurlandaráðs en það hefur tekist að verja þá stofnun fyrir sérstaka samstöðu innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og ég tel að það sé vel vegna þess að þarna er um hina merkustu stofnun að ræða þó að við skiljum kannski gildi hennar betur en ýmsir þeir sem ekki búa á virkum eldfjallasvæðum.

Hlutverk Norðurlandaráðs í þessu ferli öllu saman innan ráðsins er þríþætt. Það er að eiga frumkvæði að samnorrænum verkefnum, að vera ráðgefandi í norrænu ráðherranefndinni og hafa eftirlilt með og fylgja eftir starfseminni. Mitt mat er það eftir að hafa setið í ráðinu í eitt ár að þar sé unnið mjög vel og öllu sé mjög vel fylgt eftir þó að auðvitað megi alltaf gera betur.

Ég vil minna sérstaklega á verkefni sem við Íslendingar höfum haft mikinn hag af eins og Nordplus, Nordjobb og nú síðast er Nordplus juniors og Nordplus mini að komast á sem snýr að yngsta hóp styrkþega og styrkir bein samskipti ungmenna milli Norðurlanda og ég tel mjög mikilvæg fyrir norrænt samstarf í framtíðinni. Það má segja að Norðurlandaráð hafi verið eins konar hugmyndasmiðja Norðurlandasamstarfsins og það er einmitt fyrir þeirra tilstilli sem þau verkefni sem ég gat um áðan voru samþykkt.

Það má segja að ef Íslendingar leggja 70 millj. í norræna samvinnu eins og hefur verið á undanförnum árum, þá megi fullyrða að við fáum 250 millj. beint til baka og ég tel að við megum vel við una. Einnig má nefna að íslensk fyrirtæki og stofnanir hafa átt greiðan aðgang að hagstæðum lánum úr Norræna fjárfestingarbankanum og með þátttöku í ýmsum norrænum verkefnum höfum við öðlast verðmæta þekkingu og reynslu. Þannig hefur þekking og reynsla hinna Norðurlandaþjóðanna í mörgum málefnum flust til okkar sem íslenskir þingmenn njóta vissulega góðs af, t.d. við lagasetningu á hinu háa Alþingi. Við höfum sem sagt ekki alltaf þurft að finna upp hjólið þegar við erum að koma fram góðum málum. Það má oft notast við það sem er búið að vinna áður á Norðurlöndunum.

Ég vil taka það fram að hin nána Norðurlandasamvinna einangrar ekki Norðurlöndin. Þvert á móti, eins og ég tók áður fram, skapar hún skilyrði fyrir aukinni alþjóðasamvinnu. Hún skapar skilyrði fyrir Íslendinga til að hafa aukin áhrif á heimsmálin. Það má þó segja að ekki hafi tekist nægilega vel til með þann þátt. Þar má vissulega gera betur og ég tel að við eigum öll að vera okkur meðvituð um þann möguleika. Ég hef heyrt mjög marga tala um það frá hinum Norðurlöndunum að við þurfum að standa betur á verðinum þarna og þróa þennan tiltekna þátt samstarfsins betur og ég skal vissulega styðja það vegna þess að sem hluti af ríkjahópi Norðurlandanna getur Ísland komið fram sem fullgildur þátttakandi í alþjóðasamstarfi, t.d. í Sameinuðu þjóðunum, öfugt við fjölda annarra smáríkja sem meira að segja eru miklu stærri en við en hafa ekki það bakland sem við höfum í norrænni samvinnu. Ekkert hinna norrænu ríkja er stórt á alþjóðlegan mælikvarða en samvinna okkar er hins vegar rómuð víða um lönd. Sýnilegur árangur er af þeirri samvinnu og ég tel að í ljós hafi komið gegnum þá samvinnu síðan Norðurlandaráð var stofnað að við erum tvímælalaust sterkari saman.