Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:17:04 (1013)

1999-11-02 19:17:04# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom víða við í ræðu sinni en flestöllu sem laut að Evrópumálunum er ég andsnúinn. Þó er það eitt sem ég vildi koma hér upp til þess að taka undir með hv. þm. Hann geindi frá því að mikil umræða hefði verið um aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég var þá í stjórnarliði sem fylgdi því máli og var ákaflega glaður yfir því að um það náðist að lokum góð sátt meðal þjóðarinnar. En ég held eftir á að hyggja að rétt sé hjá hv. þm. að það hefði átt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Ekki vegna þess að ég telji að þar hafi verið um slíkt framsal á fullveldi að ræða að það væri nauðsynlegt heldur er ég orðinn þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um slík mál. Ég vil upplýsa hv. þm. um að einmitt umræður um hvort þjóðaratkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram um þetta tiltekna mál urðu til þess að hugsun mín um gildi þjóðaratkvæðagreiðslu og reyndar fulltrúalýðræðis gjörbreyttist. Þetta vildi ég láta koma fram.

Ég er hins vegar ósammála hv. þm. um að þetta mál sé stöðugt á dagskrá og menn séu jafnan að ræða um þetta. Svo kann að vera innan samtakanna sem hv. þm. tilheyrir þó að ég hafi frekar talið mig verða þess áskynja að þar ríki það mikil eining um málið að ekkert þurfi að ræða það vegna þess að menn eru þar alfarið á móti því. En ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að hæstv. forsrh., sem er öflugur maður í þjóðlífinu eins og hv. þm. veit, gekk fram fyrir skjöldu ekki alls fyrir löngu, fyrir nokkrum missirum og sagði: Þetta mál er ekki á dagskrá. Það boð hefur gengið út frá forustu Sjálfstfl. að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá. Þegar við hefur legið að samþykktur hafi verið stuðningur við aðildarumsókn, til að mynda hjá Samtökum ungra sjálfstæðismanna fyrir nokkrum árum, þá fór forusta flokksins hamförum til að ýta málinu út.

Það er þetta sem ég tel að hafi komið í veg fyrir að mikil umræða hafi verið um málið á síðustu árum. Ég er þess vegna ósammála hv. þm. um að slík umræða hafi farið fram.