Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:29:58 (1020)

1999-11-02 19:29:58# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur það sannast sagna ekki mjög á óvart að Samtök iðnaðarins eða fulltrúar þeirra samtaka skuli ánægðir með hið Evrópska efnahagssvæði. Gagnrýni mín lýtur fyrst og fremst að því að ég tel að samningurinn um EES hafi þröngvað okkur út í að markaðsvæða samfélagið í ríkari mæli en ég tel vera heppilegt. Við erum nú að sjá afleiðingar þessa í einkavæðingu og því hvernig markaðsöflin fara með samfélag okkar.

[19:30]

Ég tel að í samfélaginu á Íslandi sé miklu meiri gagnrýni á EES en margur ætlar. Eftir að við gengum inn í þetta samkomulag og tókum á okkur skuldbindingar sem því fylgja þá hafa menn ekki séð hvernig þeir fái vikist undan þeim. Við erum að leggja það til í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að strax hefjist vinna í að reyna að þróa þetta í átt til tvíhliða samkomulags þar sem við næðum niðurstöðu sem ekki þrengdi að lýðræðinu í landinu. Ég hef stundum tekið sem átakanlegt dæmi um tilraunir okkar til að sveigja samninginn til, jafnvel fara á bak við hann, smíðina á varðskipinu sem er allt í einu orðið hernaðarleyndarmál sem af þeim sökum verður að smíða á Íslandi. Auðvitað er þetta átakanlegt og næstum því hlægilegt. En þarna kemur glögglega fram á hvernig markaðssáttmálinn hefur þrengt að lýðræðinu í landinu.