Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:45:25 (1022)

1999-11-02 19:45:25# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hæstv. utanrrh. að ég tel mikilvægt að Íslendingar taki þátt í alþjóðasamstarfi af fullri reisn.

En fyrst um heiðarleika og óheiðarleika. Ég vísaði til umræðu um einkavæðingu, einkavæðingu á Landssímanum og einkavæðingu á bönkunum, og ég færði rök fyrir því að hún hefði ekki farið heiðarlega fram. Ýmislegt var fullyrt hér í þingsal og á opinberum vettvangi á allt annan veg en þróunin síðan varð og það er óþarfi fyrir hæstv. utanrrh. að bregðast svona illa við og taka ásakanir um óheiðarlega umræðu til sín, eins og mér þótti hann gera. Ég var ekki að tala um að það eitt væri heiðarlegt að vera á móti Evrópusambandinu eða vilja þróa samstarfið í átt til tvíhliða samkomulags. Alls ekki. Það var heiðarleg afstaða sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Hann vill að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu, sækjum þar um aðild. Þetta er heiðarlegt. Það getur líka svo sem verið heiðarlegt að segjast ekki vita hvað maður vilji. En það er óheppilegt í pólitík og sérstaklega ef maður er utanrrh. heillar þjóðar. Það sem mér virtist hæstv. utanrrh. vera að segja, bæði í ræðu sinni og í andsvörum í dag, er að hann telji að EES sé úr sér gengið eða EES-samningurinn sé að verða ófullnægjandi. Þá eru tveir kostir í stöðunni, að sækja um aðild og láta reyna á það hvort við náum fullnægjandi skilmálum eða að þróa samstarfið til tvíhliða samnings. Hvorn kostinn vill hæstv. utanrrh. velja?