Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:47:29 (1023)

1999-11-02 19:47:29# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að setja þetta mál upp á þann hátt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði. Hann sagði að menn hefðu ekki farið nægilega heiðarlega í þetta með bankana og fjármagnsmarkaðinn. Það hefur verið mikil þróun í þeim málum á undanförnum árum. Afstaða flokka hefur verið að breytast. Flokkur eins og Framsfl. taldi áður fyrr að ríkið ætti að vera með öflugar stofnanir á fjármagnsmarkaði. Við erum ekki þeirrar skoðunar í dag að það þjóni hagsmunum almennings. Við teljum að það sé orðin svo mikil samkeppni, að svo mikil breyting hafi orðið í samfélaginu að ríkið geti farið út úr því. Það er ekki að gerast í einu vetfangi. Þessi umræða hefur átt sér stað og hún hefur þróast og leitt til ákveðinnar niðurstöðu.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að sú umræða sem á sér stað innan flokks míns mun að lokum leiða til einhverrar niðurstöðu. Ég veit hins vegar ekki nákvæmlega hver hún verður og segi það fullkomlega heiðarlegt. Það getur vel verið að flokkur hv. þm. viti nákvæmlega hvernig allt þróast hjá þeim og það sé bara ein ákveðin leið. Framsfl. er ekki þannig flokkur. Við tökum umræðu um málin og reynum að komast að ákveðinni niðurstöðu. En að sjálfsögðu munum við reyna að setja fram öll sjónarmið sem eru nauðsynleg í þessu máli. Ég tel það fullkomlega heiðarlegt. Ég vænti þess að hv. þm. virði starfshætti annarra flokka þó að hann kjósi að hafa það með allt öðrum hætti í sínum flokki. Það sama hefur verið sagt af Samfylkingunni. Er eitthvað óheiðarlegt við það? Eins er staðan í Sjálfstfl.