Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:54:12 (1026)

1999-11-02 19:54:12# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má segja að umræðan sé svo sannarlega á enda runnin þegar hún er u.þ.b. að færast yfir í umræðu um einkavæðingu og ríkisrekstur. En ég vil taka fram að mér hefur fundist þetta málefnaleg umræða um utanríkismálin. Fram hafa komið fyllri upplýsingar um fjölmarga þætti utanríkismála í umræðunni, hér er ólíkum sjónarmiðum hreyft og ólíkar skoðanir þingmanna eiga vissulega mikinn rétt á sér. Þannig fáum við skoðanaskipti.

Ég er ekki sammála hæstv. utanrrh. á öllum sviðum, en ég er ánægð með sumt. Með því að fá tækifæri til að vera með eftirrekstur og eftirfylgni fáum við tækifæri til að taka málin upp í umræðum síðar og það hef ég t.d. gert hverju sinni í umræðu um utanríkismál. Mér finnst skipta máli að fylgjast með mörgum afmörkuðum þáttum, eins og hér hefur komið fram um sakadómstólinn, Ruanda-dómstólinn og fleiri þætti sem eru kannski ekki stórir þegar við horfum héðan frá Íslandi á utanríkismálin í heild sinni, en er afar mikilvægt að við sem þjóð séum vakandi fyrir. Þess vegna skiptir það mig máli að þeim sé fylgt eftir og ég er ánægð með þau svör sem ég hef fengið við spurningum mínum í dag. Ég þakka þau svör og þakka fyrir góða umræðu.