Aðild að Haagsamningi um vernd barna og ættleiðingu milli landa

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:56:15 (1027)

1999-11-02 19:56:15# 125. lþ. 17.6 fundur 112. mál: #A aðild að Haagsamningi um vernd barna og ættleiðingu milli landa# þál. 4/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að Haagsamningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa sem gerður var í Haag 29. maí 1993.

Þessum samningi er ætlað að samræma þau skilyrði sem sett eru af hálfu stjórnvalda samningsríkja svo að ættleiðing milli landa megi fara fram með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi.

Tilgangur samningsins er að við ættleiðingu milli landa séu grundvallarréttindi barnsins virt og komið í veg fyrir brottnám barna og verslun með þau, svo og að tryggja að samningsríki viðurkenni ættleiðingar sem fara fram í samræmi við samninginn.

Samningurinn byggist á því að samvinna sé á milli þess ríkis þar sem barn á búsetu (upprunaríkis) og þess ríkis þar sem umsækjendur um ættleiðingu eiga búsetu (móttökuríkis) við meðferð ættleiðingarmála. Mikilvægt er að góð samvinna sé á milli ríkja til að markmiðum samningsins verði náð.

Samkvæmt frv. til ættleiðingarlaga sem lagt hefur verið fram á þessu löggjafarþingi eru sköpuð skilyrði til að unnt sé að standa við skuldbindingar sem samningsríki gangast undir samkvæmt samningnum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.