Kostun þátta í Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:45:05 (1039)

1999-11-03 13:45:05# 125. lþ. 18.1 fundur 104. mál: #A kostun þátta í Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég spyr hér hæstv. menntmrh. að gefnu tilefni hversu lengi það hafi viðgengist að menn geti keypt sig frá óþægilegum spurningum með því að kosta útvarpsþætti. Herra forseti, þetta er stórpólitísk spurning. Hún varðar Ríkisútvarpið, hún varðar hlutleysi þess og jafnvel framtíð þess. Hún varðar tiltrú þjóðarinnar.

Hæstv. ráðherra kemur hér og kýs að svara með upplestri á þeim reglum sem settar hafa verið um kostun. Hann kýs að svara spurningunni þannig, þ.e. hann kýs að svara ekki.

Ég vitnaði í lögin, herra forseti, og þar komu fram meginatriði þess sem hæstv. ráðherra vitnaði til. Hjá mér kom fram, eins og öllum mátti vera ljóst, að þessar reglur höfðu greinilega verið þverbrotnar. Enda kom það fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni að málið hafði verið rætt í útvarpsráði. Þar hafði verið bókað vegna málsins og þeir sem útbjuggu þetta svar í hendur hæstv. ráðherra vissu nákvæmlega um hvað málið snerist. Einhverra hluta vegna kusu þeir að svara ekki og það veldur mér verulegum áhyggjum.

Ég hafði litið svo á, herra forseti, að með því að taka málið upp á þessum vettvangi og gefa hæstv. ráðherra tækifæri til þess að koma hér fram með varnir og skýringar þá værum við e.t.v. að stíga ákveðið skref í átt til þess að rétta hlut Ríkisútvarpsins. Það virðist hæstv. menntmrh. ekki kæra sig um að gera. Herra forseti. Það veldur áhyggjum.