Forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:47:29 (1040)

1999-11-03 13:47:29# 125. lþ. 18.2 fundur 105. mál: #A forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég viðheld nú umræðunni um Ríkisútvarpið með þeirri fsp. sem ég hef lagt fram til menntmrh. hæstv. varðandi forgang kostaðra dagskrárliða í dagskrá Rásar 2. Eins og getið var um hér áðan var þann 14. október sl. gerður samningur við rekstraraðila verslunarmiðstöðvar hér í borg um að dagskrá morgunútvarps Rásar 2 yrði send út frá viðkomandi verslanamiðstöð í tilefni af því að verið var að vígja þar viðbyggingu. Rekstraraðilarnir þurftu að greiða 150 þús. kr. fyrir þriggja klukkustunda útsendingu frá kl. sjö til kl. tíu.

Nú vill svo til að í dagskrá Ríkisútvarps, Rásar 2, er fastur þáttur sem hefst hvern virkan morgun kl. níu. Þessum þætti var skipað út úr dagskránni og dagskrárgerðarmanni hans gert að bíða með að hefja útsendinguna til kl. tíu. Nú spyr ég hæstv. menntmrh. hvert álit hans sé á því sem vakið hefur furðu og hörð viðbrögð hlustenda Rásar 2, að aðilar skuli geta keypt fasta dagskrárliði út úr dagskránni með þessum hætti og vinnu dagskrárgerðarmanna þannig sýnd fullkomin lítilsvirðing. Stefna dagskrárgerðarmanna á Rás 2 hefur verið að vinna þættina sína. Í þessu tilfelli var hvorki dagskrárgerðarmaðurinn beðinn afsökunar né fastir hlustendur þáttarins.

Varðandi kaup rekstraraðila verslunarmiðstöðvarinnar á útsendingartíma þá vil ég vekja athygli hæstv. ráðherra á því að morgunútvarp Rásar 2 sem gert var að senda út úr téðri viðbyggingu í þrjár klukkustundir umræddan morgun er skilgreint í dagskrá sem fréttatengdur þáttur. Af því tilefni tel ég líka rétt að fá sjónarmið hæstv. ráðherra á því hvort að hann telji að í lagi sé að selja útsendingartíma til auglýsenda hvort sem um fréttaþætti eða annars konar efni er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en að það sem hér hefur gerst sé bæði andstætt 4. gr. útvarpslaganna og einnig andstætt reglum um kostun dagskrárliða í Ríkisútvarpinu sem hæstv. ráðherra las úr hér áðan. Þar á ég við 4. lið þeirra reglna.

Varðandi orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar hér áðan þá viðurkenni ég og veit og við vitum það öll að Ríkisútvarpið er á hraðri niðurleið. En ég fullyrði að það sé vegna stefnu stjórnvalda, vegna stefnu hæstv. menntmrh. í málefnum Ríkisútvarpsins sem hefur veikt það innan frá meðvitað til að gengisfella það og gera auðveldara um vik að selja það síðar.