Forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:55:14 (1044)

1999-11-03 13:55:14# 125. lþ. 18.2 fundur 105. mál: #A forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Sjálfskipaðir verjendur óbreytts ástands í Ríkisútvarpinu hafa komið upp og hv. þm. Mörður Árnason sagði að við hefðum hreytt ónotum í starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þetta er náttúrlega algjör misskilningur. Við höfum ekki hreytt ónotum í starfsmenn Ríkisútvarpsins yfirleitt. Við höfum bent á að þarna er mjög hæft starfsfólk sem hefur ekki fengið vinnufrið og fær ekki að njóta sín í því starfsumhverfi sem því er búið. Það er það sem skiptir máli. Endalaus afskiptasemi af störfum fólks á þessum vettvangi sem kemur í stað faglegrar umræðu innan stofnunarinnar er náttúrlega óþolandi.

Hér kemur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og kvartar yfir því að starfsmaður í Ríkisútvarpinu hafi ekki verið beðinn afsökunar. Það er tekið fyrir á Alþingi að starfsmaður í Ríkisútvarpinu hafi ekki verið beðinn afsökunar. Ég átta mig ekki á þessari umræðu, herra forseti.