Rannsóknir á útkomu samræmdra prófa

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:18:36 (1057)

1999-11-03 14:18:36# 125. lþ. 18.3 fundur 108. mál: #A rannsóknir á útkomu samræmdra prófa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju hæstv. menntmrh. kýs að leggja orð mín út með þessum hætti, þ.e. kýs að gera meira úr því sem ég sagði en í orðunum lá. Ef til vill er það vegna þess að ég gat þess hér líka að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála taldi sig ekki fá fé til þess að sinna þeim rannsóknum sem hún átti að gera og gefa þau svör sem hún hefði átt að gefa. Þeir aðilar sem hafa farið inn í skólana til þess að veita ráðgjöf hafa ekki haft aðgang að þessum upplýsingum. Þeir hafa þurft að þreifa sig áfram. Þeir hafa ekki haft þann grunn að standa á sem þeir hefðu þurft að hafa.

Því segi ég að auðvitað hefði verið hægt að gera þetta betur, m.a. ef settir hefðu verið peningar í rannsóknir og ef menn hefðu hugsað það fyrir áður en þeir fóru í það að birta niðurstöður samræmdra prófa til hvers þessi leikur var gerður. Til hvers var hann gerður?

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. um að halda sig við það efni sem hér er til umræðu (Gripið fram í.) Ef hæstv. ráðherra vildi gefa forseta tækifæri á að ljúka máli sínu þá væri hann ánægður með það. Hér er um það að ræða að samkvæmt þingsköpum getur hv. þm. borið af sér sakir. Hann gerði það. En hér er ekki framhald efnislegar umræðu um þetta mál og forseti vill árétta það. Er eitthvað frekar sem hv. þm. vill leggja til málanna undir þessum dagskrárlið, þ.e. að bera af sér sakir?)

Herra forseti. Ég tek fyllilega mark á orðum forseta og læt máli mínu lokið.