Langtímaáætlun í jarðgangagerð

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:34:53 (1062)

1999-11-03 14:34:53# 125. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A langtímaáætlun í jarðgangagerð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh. hvað líði undirbúningi að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. mars sl. um gerð langtímaáætlunar í jarðgangagerð á Íslandi. Þennan dag samþykkti Alþingi eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.``

Á mörgum stöðum á landsbyggðinni er jarðgangagerð lífsspursmál og jafnframt mikilvægur þáttur í að stækka sveitarfélög og gera þeim kleift að sameinast og/eða auka samvinnu sína, með öðrum orðum að stækka atvinnusvæði og auka um leið hagkvæmni í ýmsum rekstri, bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjum almennt. Stækkun atvinnusvæða er nútímaleg byggðastefna. Nútímalegar samgöngubætur með jarðgöngum þar sem við á eru lykill að frekari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga og stækkun atvinnusvæða og því að rjúfa vetrareinangrun.

Herra forseti. Á þskj. 61 hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. samgrh. eftirfarandi spurningar:

,,1. Hvað líður undirbúningi að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. mars sl. um gerð langtímaáætlunar í jarðgangagerð á Íslandi?

2. Mun ráðherra leita eftir því að þingflokkarnir tilnefni menn í þverpólitíska nefnd sem fjalli um þennan mikilvæga málaflokk í samgöngumálum landsbyggðarinnar?``

Þessi fsp. er jafnframt sett fram í framhaldi af þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 þar sem fjallað er um samgöngumál og þann mikilvæga þátt sem þau skipa í byggðastefnu framtíðarinnar.