Langtímaáætlun í jarðgangagerð

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:37:13 (1063)

1999-11-03 14:37:13# 125. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A langtímaáætlun í jarðgangagerð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Möller hefur borið fram fsp. um langtímaáætlun í jarðgangagerð. Ég þakka hv. þm. fyrir þann áhuga sem hann sýnir á þeim málum áður en ég svara fsp. hans. Hún er í tveimur liðum eins og fram kom. Fyrri liðurinn er svohljóðandi:

,,Hvað líður undirbúningi að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. mars sl. um gerð langtímaáætlunar í jarðgangagerð á Íslandi?``

Því er til að svara að með bréfi, dags. 30. mars 1999, fól samgrn. Vegagerðinni að vinna að undirbúningi að gerð langtímaáætlunar í jarðgangagerð. Samkvæmt ályktun Alþingis frá 11. mars sl. skal áætlunin fela í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Jarðgangaáætlun átti að liggja fyrir áður en lokið yrði við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.

Vegagerðin hefur síðan að undanförnu unnið að málinu með margvíslegri gagnaöflun. Áætlunin verður tvíþætt. Annars vegar verður gerð yfirlitsáætlun þar sem tekin eru með þau jarðgangaverkefni sem hafa verið til skoðunar og umræðu undanfarið. Þar við bætast verkefni sem Vegagerðin telur koma til álita en þau eru fjölmörg um allt land og margir áhugamenn um jarðgöng.

Hér er um mörg og misstór verkefni að ræða. Hins vegar verða valin úr þessu safni verkefna þau sem brýnust teljast og þeim raðað í forgangsröð. Miðað er við að vinnu Vegagerðarinnar ljúki um næstu áramót. Í framhaldi af því verður áfram unnið að undirbúningi.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort ráðherra muni leita eftir því að þingflokkarnir tilnefni menn í þverpólitíska nefnd sem fjalli um þennan mikilvæga málaflokk í samgöngumálum á landsbyggðinni.

Á þessu stigi mun ég ekki leita eftir tilnefningu en mun hafa samráð við samgn. Alþingis þegar nær dregur því að vinnu Vegagerðarinnar ljúki. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við hv. þm. sem þar sitja.